Nýlega efndu Ríkiskaup og Landhelgisgæsla Íslands til útboðs vegna kaupa á varðskipinu Freyju. Fimm tilboð bárust frá Atlantic Shipping A/S, C‐solutions ehf, Havila Shipping ASA, Maersk Supply Service A/S og United Offshore Support GmbH. Þetta kemur fram í opnunarskýrslu Ríkiskaupa. Tilboð voru opnuð í gær og nú er unnið að því að meta þau.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá stjórnvöldum þar sem segir jafnframt:
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, tilkynnti í mars að nýlegt varðskip yrði keypt fyrir Landhelgisgæsluna síðar á árinu. Starfshópur hóf strax undirbúning kaupanna. Dómsmálaráðherra lagði til að varðskipið fengi nafnið Freyja en fram að þessu hafa varðskip Landhelgisgæslunnar öll borið karlmannsnöfn úr norrænni goðafræði. Landhelgisgæslan tók vel í hugmyndina og hefur þegar tryggt sér einkarétt á skipsnafninu Freyju hjá Samgöngustofu. Gert er ráð fyrir að varðskipið Freyja verði komið til landsins fyrir næsta vetur.
Tilboðin voru eftirfarandi:
Atlantic Shipping A/S
1.100 milljónir króna
Maersk Supply Service A/S
1,253 milljónir króna (10.000.000 USD)
C‐solutions ehf
1.491 milljónir króna
United Offshore Support GmbH
1.753 milljónir króna
Havila Shipping ASA
2,101 milljón króna (13.627.000 EUR)