Undanfarin tvö sumur bárust Fiskistofu alls 402 laxasýni frá flotvörpuveiðiskipum. Svo virðist sem meðafli á laxi hafi numið um 5 til 6 löxum á hverjar 1000 lestir af makríl, að því er fram kemur á vef Fiskistofu.
Á árinu 2010 hóf Fiskistofa í samvinnu við sjómenn og útgerðir skipulagða skoðun á meðafla í flotvörpuveiðum með sérstaka áherslu á lax, en stjórnsýsla og eftirlit með lax- og silungsveiði er eitt af verkefnum stofnunarinnar. Megintilgangurinn var að kanna hvort lax veiddist í einhverjum mæli við veiðar á uppsjávarfiski, en dæmi voru um slíkan meðafla í hringnót á síldarárunum fyrir 1970.
Vitað var að söfnun á laxi í slíkum veiðum gæti verið mikilvægt framlag til rannsókna á laxi í sjó og var leitað eftir samstarfi við Veiðimálastofnun og MATÍS um líffræðilega skoðun á laxinum og erfðafræðilega greiningu á sýnunum með tilliti til uppruna. Hafa stofnanirnar þegar greint frá nokkrum niðurstöðum vegna sýnatöku á árinu 2010. Rannsóknirnar benda til að laxinn sem veiðst hefur sem meðafli á Íslandsmiðum sé einkum upprunninn frá öðrum Evrópulöndun fremur en Íslandi. Enn er verið að rannsaka sýnin sem fengust sumarið 2011 og verður greint frá niðurstöðum þeirra rannsókna síðar.
Fiskistofa hefur tekið saman niðurstöður og greiningu á tíðni laxa í meðafla uppsjávarskipa fyrir árin 2010 og 2011. Kortlagt hefur verið hvernig sá meðafli dreifist umhverfis landið. Þar sem hér er um brautryðjendastarf að ræða að því er varðar meðafla í veiðum á uppsjávarfiskum þá verða þessar upplýsingar birtar á ensku síðar á árinu og kynntar á vettvangi Alþjóða Hafrannsóknaráðsins (ICES).
Hér er hægt að nálgast greinargerð Árna Ísakssonar og Sumarliða Óskarssonar, Fiskistofu um meðafla á laxi í flotvörpuveiði 2010 og 2011.