Kína og Tævan eru þær þjóðir sem eru afkastamestar í veiðum í lögsögu annarra ríkja og stóðu fyrir nær 60% allra slíkra veiða á árunum 2015-2017. Japan, Suður-Kórea og Spánn stendur fyrir 10% allra slíkra veiða hvert um sig og samanlagt er því 90% allra fiskveiða í lögsögu annarra ríkja stunduð af þessum fimm þjóðum.
Þetta kemur fram í skýrslu bandarísku rannsóknastofnunarinnar Stimson. Stofnunin gaf út í nóvember skýrslu með yfirliti yfir fjarfiskveiðar í heiminum og tengingu þeirra við ólöglegar, eftirlitslausar fiskveiðar og þær sem ekki lúta tilkynningaskyldu.
Fiskiskip þessara fimm afkastamestu þjóða hafa einkum stundað veiðar á þremur hafsvæðum, þ.e. í Kyrrahafinu, við Austur-Afríku og Vestur-Afríku.
Stofnunin segir að veiðarnar séu einkum stundaðar við strandríki þar sem fiskveiðistjórnun er ábótavant og þar sem spilling er innan stjórnkerfisins.
Á níunda áratug síðustu aldar voru fiskveiðar af þessu tagi stundaðar af þremur stórum flotum frá Sovétríkjunum, Japan og Spáni. Við fall Sovétríkjanna komu aðrar þjóðir til skjalanna. Eftir því sem dró úr sókn Rússlands og annarra Evrópuþjóða á fjarlægum miðum jókst þáttur Kína og Tævans sem nú eru leiðandi í fjarfiskveiðum í erlendum lögsögum.
Í skýrslunni segir að stærstum hluta afla flotans hafi verið landað í Dakar í Senegal, Conakry í Gíneu, Majuro á Marshall eyjum og Nouadhibou í Máritaníu.