Rafnarbátarnir tveir sem Björgunarsveitin Garðar á Húsavík og Björgunarsveitin Sæbjörg á Flateyri hafa fengið afhenta eru fjórði og fimmti bátur þessarar gerðar á Íslandi. Fimm þeirra eru í eigu björgunarsveita og Landhelgisgæslan keypti bátinn Óðin fyrir varðskipið Tý strax árið 2018. Benedikt Orri Einarsson, framkvæmdastjóri Rafnar, segir Ísland mikilvægan markað en ekki stóran í samanburði við þau tækifæri sem eru á heimsvísu. Í dag eru um 100 Rafnar 1100 bátar í sjónum víðs vegar um heiminn.
Rafnar 1100 eru ellefu metra langir bátar byggðir á einkaleyfisvarinni hönnun Össurar Kristinssonar, stofnanda stoðtækjafyrirtækisins Össurar, og bátahönnunarfyrirtækisins Rafnar. Bátur Húsvíkinga, Villi Páls, var afhentur sl. föstudag og Stella, bátur Flateyringa, verður afhentur formlega nk. laugardag. Hver bátur kostar hátt í 100 milljónir króna.
Hagkvæm fjárfesting
„Við erum áhugasamir um að selja björgunarsveitunum fleiri báta. Ég held að allir sem hafa kynnst þessum bátum séu mjög ánægðir með þá og vilja helst nota okkar báta. Landsbjörg gerði samning fyrir tveimur árum um kaup á finnskum vatnabátum, sem eru stærri bátar en Rafnar 1100 bátarnir, rúmlega 15 metra langir. Þegar eru komnir þrír slíkir bátar og sá fjórði hefur verið pantaður. Samningurinn gerir ráð fyrir allt að þrettán bátum allt í kringum landið. Mögulega þarf færri stóra og dýra og fleiri báta af þeirri stærð sem við erum að afhenda núna sem gæti verið hagkvæm fjárfesting fyrir sveitirnar, en sú ákvörðun liggur auðvitað hjá Landsbjörg. Ef keyptir verða fleiri stærri bátar vildum við gjarnan fá tækifæri til að bjóða okkar 15 metra hönnun,“ segir Benedikt Orri.

Okkar kjarnavara
Rafnar á hönnun að bát af þessari stærð en enn þá hefur slíkur bátur ekki verið smíðaður. Fyrirtækið tók þátt í útboði fyrir stóru björgunarbátana á sínum tíma en finnsku bátarnir urðu að lokum fyrir valinu.
„Við vorum mögulega ekki tilbúnir í smíði 15 metra báta þegar útboðið var og það fór eins og það fór. Við höfum verið að framleiða og einbeita okkur að 11 metra bátum undanfarin ár en erum um leið að kynna til sögunnar nýjar stærðir. Það eru hátt í 100 Rafnar 1100 bátar í notkun í heiminum og flest allir í Evrópu, jafnt sem skemmtibátar og björgunarbátar. Landhelgisgæslan í Grikklandi er með tíu af þeirri gerð og unnið er að því að selja þeim nokkra til viðbótar. Rafnar 1100 hefur verið okkar kjarnavara en vörulínan mun stækka á næstu misserum,“ segir Benedikt Orri.
Allt að 60 hnútum
Bátar af þessari hönnun geta gengið afar hratt. Villi Páls og Stella Páls eru með tveimur 300 hestafla utanborðsmótorum og komast á 40 hnúta siglingu. Algengast er að sams konar bátar frá Rafnar fyrir Evrópu séu með tveimur 600 hestafla mótorum og ná allt að 60 hnúta siglingu. Rafnar var með bátasmiðju í Kópavogi sem var lokað 2018 og bátarnir eru nú smíðaðir af samstarfsaðilum, aðallega í Grikklandi, og nú er verið að byggja upp samskonar einingu í Tyrklandi. Stóri markaðurinn fyrir vörur Rafnar er á meginlandi Evrópu sem og í Bandaríkjunum og kostur er að vera nær markaðnum.
Nýju bátarnir sem nú hafa verið afhentir björgunarsveitunum á Flateyri og Húsavík voru ekki í fullkomnu lagi þegar þeir komu landsins. Benedikt Orri segir gæðaeftirlit kjarnann í því að viðhalda því góða orðspori sem fari af bátum fyrirtækisins. Þess vegna hafi allir lagst á árarnar til þess að laga bátana og uppfylla þeir nú að öllu leyti þær kröfur sem gerðar eru til þeirra.
„Við afhendum ekki frá okkur vöru sem er ekki 100% í lagi. Vörumerkið er svo mikilvægt að við þurfum að algjörlega sannfærðir um að vara sé eins og hún á að vera og menn ætlast til.“
Rafnar er með góða aðstöðu í höfuðstöðvum sínum við Geirsgötu til þess að þjónusta báta sína þótt smíði þeirra hafi flust úr landi.