Það má fara ýmsar leiðir til þess að nálgast viðskiptavinina á þeim tímum þegar þeim hentar að versla. Spænsk fjölskylda, sem rekur fiskbúð í bænum Mungia um 20 kílómetra frá Bilbao á Norður-Spáni, hefur bryddað upp á þeirri nýjung að selja ferskan fisk í sjálfsala sem stendur utan við búðina.
Fiskinum er pakkað í litla bakka og kostar hver þeirra að hámarki 10 evrur, jafnvirði um 1.600 íslenskra króna. Meðal vinsælla tegunda er þorskur, lýsingur, sardínur, rækjur og smokkfiskur og er allt merkt með síðasta söludegi. Einnig eru þurrkaðar og niðursoðnar vörur í sjálfsalanum.
Fisksalinn fullyrðir að fiskurinn í sjálfsalanum sé jafnferskur og sá sem hann selur inni í búðinni og boðinn á sama verði. Um helgar er ennfremur boðið upp á soðinn partí-mat svo sem stórar og smáar rækjur og jafnvel snigla með tannstönglum. Í ljós hefur komið að vinsælast er að versla í sjálfsalanum um helgar og það er einkum yngra fólk sem nýtir sér þessa þjónustu.
Frá þessu er skýrt á sjávarútvegsvefnum Seafoodsource.com