Ferskfiskútflutningur á vegum HB Granda hefur aukist á þessu ári í samanburði við fyrri ár og allt stefnir í að magnið aukist enn í framtíðinni. Er það í samræmi við þá stefnumörkun stjórnar félagsins að auka ferskfiskvinnsluna en draga úr sjófrystingu. Að jafnaði hafa ferskir flakabitar sem samsvara um hálfri milljón máltíða verið fluttir utan í viku hverri undanfarnar vikur að sögn Sólveigar Örnu Jóhannesdóttur, sölustjóra ferskfiskafurða, að því er fram kemur á heimasíðu HB Granda.

Eins og fram hefur komið stefnir í aukna ferskfiskvinnslu á vegum HB Granda á þessu kvótaári. Helgast það m.a. af kvótaaukningu í tegundum eins og þorski, karfa og ufsa sem og því að ákveðið var að auka hráefnisöflunina fyrir fiskiðjuver félagsins í Reykjavík og á Akranesi með því að fjölga ísfisktogurunum um einn. Við fyrirsjáanlegri aukningu hefur síðan verið brugðist með stórauknum fjárfestingum í fiskvinnslubúnaði og fjölgun starfa í landvinnslunni.

Að sögn Sólveigar Örnu eru helstu markaðssvæðin fyrir ferskar afurðir frá HB Granda í Frakklandi, Þýskalandi og Belgíu. Hún segir að það stafi hvort tveggja af því að í þessum löndum sé hefð fyrir neyslu á þeim fisktegundum sem unnar eru hjá félaginu sem og því að flutningsmöguleikar séu góðir. Sjá nánar á heimasíðu HB Granda .