Um þessar mundir er Valka að setja á markað tvær nýjar tegundir af flokkurum fyrir frosnar afurðir. Annar verður afhentur FISK Seafood síðar í sumar og hinn fer til Dalvíkur í nýja landvinnsluhúsið sem Samherji er að byggja þar.
Ágúst Sigurðarson, markaðsstjóri Völku, segir að einmitt nú hitti svo á að vegna heimsfaraldurs COVID-19 hafi framleiðslufyrirtæki hafa verið að leggja meiri áherslu á að framleiða frosnar afurðir.
„Það hefur verið minnkun í fersku afurðunum til dæmis inn á veitingahúsabransann í Evrópu og þessa stórnotendur, en í staðinn hefur smásalan tekið kipp. Ekki síst hefur eftirspurn eftir frosnum bitum verið meiri en áður.“
Síðustu árin hafi hins vegar æ minni áhersla verið lögð á frosnar afurðir.
„Það hefur nánast ekkert gerst í sambandi við flokkun og pökkun fyrir frosnar afurðir í ár og jafnvel áratugi núna,“ segir Ágúst. „Síðustu árin hefur athyglin sérstaklega hér á Íslandi verið á ferskar afurðir að framleiða og pakka ferskar afurðir. Við höfum verið að kynna skurðarvélina okkar og línu í kringum það, en á bak við tjöldin höfum við verið að vinna að nýjum lausnum fyrir frosnar afurðir líka.
„Við höfum í samvinnu við Samherja og nýju verksmiðjuna sem er að fara af stað í sumar á Dalvík hannað flokkara fyrir frosna bita,“ segir Ágúst.
Afkastar meiru
Hann segir einkum þrennt vera nýtt við þennan flokkara. Í fyrsta lagi afkasti hann meiru en aðrir flokkarar, og er þar átt við að afköstin verði meiri á hvern fermetra sem hann tekur í plássi.
Annað er að þessi nýi flokkari tekur við frosnu bitunum sjálfvirkt.
„Þú þarft því ekki manneskju til að raða inn í. Það er sjálfvirk innmötun sem er alveg nýtt, og við erum að flokka afurðirnar bæði hefðbundið eftir þyngd með flæðivogum en líka með því að nota myndavélar sem geta flokkað eftir stærð og lögun bitanna.“
Í þriðja lagi segir Ágúst flokkarann fara betur með frosnu afurðirnar.
„Þær eru mjög viðkvæmar, það er frosthúðin sem er viðkvæm og þessir hefðbundnu flokkarar eru búnir örmum sem slá bitunum til á hverju hliði, en okkar flokkari keyrir bitana beint í söfnunina og fer mun mildari höndum um bitana en áður.“
Einnig er FISK Seafood á Sauðárkróki að fá afhentan í sumar samvals- og pökkunarflokkara en Valka hefur verið með sambærilegan búnað fyrir ferskar afurðir. Ágúst segir einkum tvennt vera nýtt í þessum búnaði.
Útrýmir nánast yfirvigt
„Annars vegar er það samvalið sem snýst um að þegar framleitt er í kassa með fastri þyngd, til dæmis tíu kíló, þá viltu sem framleiðandi vera sem næst tíu kílóunum vegna þess að allt umfram það ertu að gefa kaupendunum.“
Ágúst segir hefðbundna samfalsflokkara nota tölfræðispálíkön til að giska á hvaða biti sé bestur í þennan eða hinn kassann. Valka notar hins vegar leikjafræði, sérstakar reiknireglur þar sem raunvigt á miklu fleiri bitum er þekkt.
„Þannig getum við náð miklu betri árangri í samvali í kassa og eru nánast að útrýma þessari yfirvigt í hvern kassa sem sparar gríðarmikil verðmæti.“
Hinn kosturinn við þennan flokkara er að hann er sjálfvirkur, raðar sjálfur í kassann.
„Þar sparast mannskapur en mestu verðmætin nást þó vegna þess að hann nær svo góðum árangri í samvalinu.“