Um sex brúttótonna bátur, Ísey ÞH frá Raufarhöfn, fékk um 19 tunnur af grásleppuhrognum á sunnudaginn og mánudaginn. Grásleppuvertíðin fer víða glimrandi vel af stað og gott hljóð í grásleppukörlunum, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum.

„Vertíðin hefur aldrei byrjað jafnvel hjá okkur og núna. Ég hef verið á grásleppu í fjölda ára og aflinn hefur ekki áður verið eins góður á þessum tíma,“ sagði Snorri Sturluson, skipstjóri á Ísey ÞH, í samtali við Fiskifréttir.

Ísey ÞH er með 119 net í sjó og voru þau öll lögð á föstudaginn. Á sunnudaginn voru 82 net dregin og fengust 12 tunnur af hrognum en grásleppan er skorin um borð. Ísey ÞH er aðeins 6 brúttótonna bátur og þurftu þeir því að fara tvisvar út sama dag, fyrst komu þeir með 8 tunnur í land en síðan 4 tunnur. Næsta dag drógu þeir restina af netunum og fengu um 7 tunnur.

Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.