Minjastofnun Íslands hefur úthlutað Félagi áhugamanna um bátasafn Breiðafjarðar (FÁBBR) tveimur milljóna króna styrk úr Fornminjasjóði til endurbóta á súðbyrðingnum Sindra. Báturinn er sjö metra langur og var smíðaður í Hvallátrum á Breiðfirði árið 1936 af Valdimari Ólafssyni í Hvallátrum fyrir þá Jón Þórðarson og Snæbjörn Jónsson á Stað á Reykjanesi.
Hefjast handa í sumar
Ráðgert er að vinna að viðgerðinni í Báta- og hlunnindasýningunni á Reykhólum í sumar og mun Hafliði Aðalsteinsson skipasmíðameistari, formaður FÁBBR, stýra framkvæmd hennar.
Samkvæmt upplýsingum frá félaginu hefur Bátasafn Breiðafjarðar á Reykhólum á síðustu árin dregið saman á þriðja tug gamalla báta úr Breiðafjarðareyjum og héruðum í kring og bjargað flestum þeirra frá eyðileggingu. Sumir eru varðveittir í misjöfnu ásigkomulagi eftir tímans tönn, gert er við aðra og enn aðrir eru endurbyggðir. Starfið er í fullum gangi og þess vegna er safnið lifandi vinnustaður ekki síður en sýningarstaður, segir þar.
Upphafsmaður bátasafnsins var Aðalsteinn Aðalsteinsson, báta- og bryggjusmiður úr Hvallátrum á Breiðafirði.
Úr eik og furu
Sindri er smíðaður úr eik og furu og skráður 2,5 brúttólestir. Báturinn var notaður af Staðar- og Árbæjarbændum í áratugi við hlunnindanytjar og flutninga á vörum og fólki.
Árið 1962 kaupir Guðmundur Theódórsson á Laugalandi við Þorskafjörð bátinn og notað hann við hlunnindanytjar o.fl. Árið 1990 gerði Guðmundur bátinn upp og hefur síðan haldið honum mjög vel við. Árið 2015 afhenti Guðmundur bátasafninu Sindra til eignar og varðveislu.