Skipverjarnir á Hrafni GK 111 fengu þennan risavaxna beinhákarl í veiðarfærin í gær. Hákarlinn, sem var um 10 metrar á lengd og hátt í 3 tonn, var sprelllifandi þegar hann kom úr trollinu en viðskotaillur mjög og báru björgunaraðgerðir því engan árangur og bar hann fljótlega beinin þarna á dekkinu. Frá þessu er skýrt á vefnum grindavik.is.

Beinhákarlar geta orðið ansi stórir en þeir eru næst stærsta fiskitegund úthafanna. Hér áður fyrr voru þeir eftirsóttir þar sem lifrin í þeim er stór og gaf af sér mikið lýsi, en í dag er hún ekki nýtt og beinhákarlarnir þar fyrir utan víðast hvar friðaðir vegna ofveiði. Það er því lítill fengur af því að veiða slíka risa í dag enda var það ekki með ráðum gert í þetta skiptið, segir ennfremur á vefnum.

Myndina tók Bergþór Gunnlaugsson skipstjóri.