Fyrsta skemmtiferðaskip ársins 2025 leggst að bryggju á Ísafirði á morgun, þriðjudaginn 6. maí. Þar með hefst skemmtiferðaskipasumarið formlega á Ísafirði.
Þetta kemur fram á vef Ísafjarðarbæjar þar sem segir að 197 skipakomur séu bókaðar frá 6. maí til 30. október.
„Samanlagður fjöldi farþega um borð í skipunum er að hámarki 267.300 en vert er að geta þess að nýting plássa um borð í skipunum er alla jafna um 70 prósent,“ segir á isafjordur.is.
„Komur skemmtiferðaskipa skipta öllu máli fyrir rekstur hafna Ísafjarðarbæjar en tekjur af komum skemmtiferðaskipa árið 2024 voru 760 milljónir króna,“ segir áfram á vef Ísafjarðarbæjar.
Eru á Snæfellnesi í dag
Þess má geta að það er skemmtiferðaskipið Amera sem kemur til Ísafjarðar á morgun en Amera kom til Grundarfjarðar fyrr í dag og er fyrsta skemmtiferðaskip sumarins þar einnig. Á Facebook-síðu Grundarfjarðarhafnar um 500 farþegar um borð færu í ferðir um Snæfellsnes í dag.
Í maí eru bókaðar níu skipakomur og í sumar eru alls bókaðar tæplega áttatíu komur skemmtiferðaskipa í Grundarfjörð.