Þéttleiki makríls við landið sá minnsti sem mælst hefur. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hafrannsóknastofnun þar sem sagt er frá bráðabirgðaniðurstöðum íslenska hlutans í árlegum alþjóðlegum uppsjávarvistkerfisleiðangri í Norðurhöfum að sumarlagi.
Rannsóknaskipið Árni Friðriksson lauk þátttöku í leiðangrinum 25. júlí.
„Í þessum 26 daga leiðangri Árna kringum Ísland og Jan Mayen voru teknar 56 togstöðvar, þar af 46 staðlaðar og fyrir fram ákveðnar yfirborðstogstöðvar, og sigldar um 5000 sjómílur eða ríflega 9 þúsund kílómetrar. Þá voru gerðar sjómælingar og teknir átuháfar á öllum yfirborðstogstöðvum,“ segir á vef Hafrannsóknastofnunar.
Heildarafli makríls í leiðangrinum var einungis 97 kíló

Í leiðangrinum voru skip frá Noregi, Færeyjum og Danmörku. Heildarniðurstöður verða kynntar í lok ágúst en bráðabirgðaniðurstöður íslenska hlutans liggja fyrir.
„Bráðabirgðaniðurstöður mælinga sýna að þéttleiki makríls í íslenskri landhelgi er sá minnsti sem mælst hefur síðan leiðangurinn var fyrst farinn sumarið 2010. Makríll veiddist á 13 af 46 yfirborðstogstöðvum sem allar voru á austanverðu svæðinu (mynd 1, efst). Aflinn var lítill eða var frá 0,5 kg til 23 kg. Heildarafli makríls í leiðangrinum var einungis 97 kg eða 164 fiskar. Makríllinn var stór með meðallengd 40 cm og meðalþyngd 590 g,“ segir Hafró.
Meiri þéttleiki á kolmunna en síðustu sumur
Þá segir að líkt og undanfarin ár hafi norsk-íslenska vorgotssíld verið að finna á mörgum togstöðvum fyrir norðan og austan landið. Íslensk sumargotssíld hafi fengist á landgrunninu fyrir sunnan og vestan landið líkt og jafnan.
„Kolmunni mældist við landgrunnsbrúnina austan, sunnan og vestan við landið í meiri þéttleika en síðustu sumur. Þá fékkst kolmunni í 8 yfirborðstogstöðvum fyrir austan og sunnan landið sem er óvenjulegt. Meðalstærð kolmunna var 23 cm og 84 g,“ segir í tilkynningunni.
Sjaldgæft að fá loðnu á eins stóru svæði

Fram kemur að loðna hafi fundist á átta togstöðvum, þarf af sjö yfirborðstogstöðvum fyrir norðan landið og fyrir sunnan Jan Mayen.
„Stærð loðnunnar var frá 9 cm til 19 cm og að meðaltali var loðnan 16 cm og vóg 20 g. Það er sjaldgæft að fá loðnu á eins stóru svæði í leiðangrinum þó það hafi gerst áður að loðna hafi fengist á 1-3 togstöð í Grænlandssundi,“ segir Hafró.
Einnig er sagt frá því að bráðabirgðaniðurstöður sýni að hitastig í yfirborðslagi sjávar hafi verið hærra sumarið 2024 allt umhverfis landið. Veðrið hafi verið einstaklega lygnt í leiðangrinum. „Það er líklegt að þetta hafi valdið því að yfirborðslagið hélst stöðugt í langan tíma, sem gefur sólinni tækifæri til að hita það.“