Skiptimarkaði Fiskistofu í mars er lokið. Í boði var kvóti í nokkrum tegundum í skiptum fyrir þorsk, ýsu og steinbít. Allur ufsi, loðna Skjálfandarækja, úthafskarfi og þorskur í norskri lögsögu sem voru í boði gengu út í skiptum fyrir aflamark í þorski og ýsu. Ekki bárust tilboð í skrápflúru, þorsk í rússneskri lögsögu og Flæmingjarækju, að því er fram kemur á vef Fiskistofu.

Í boði voru meðal annars um 1.540 tonn af loðnu, 398 tonn af ufsa, 226 tonn af úthafskarfa og 145 tonn af þorski í norsku lögsögunni. Samtals fengust um 273 tonn af þorski og 213 tonn af ýsu en enginn steinbítur.

Megnið af ufsanum, eða 350 tonn, hreppti Höfrungur III AK og lét í staðinn 155 tonn af ýsu.

Aðalsteinn Jónsson SU náði til sín allri loðnunni, eða 1.540 tonnum, en lét á móti 141 tonn af þorski. Í upplýsingum á vef Fiskistofu má sjá að skipið hefur boðið í loðnuna í þremur skömmtum. Fyrir fyrsta skammt, 400 tonn af loðnu, var boðið 51 tonn af þorski, hlutfallið er 0,127. Fyrir næstu 200 tonnin voru boðin rúm 18 tonn af þorski, hlutfallið 0,091 og loks tæp 72 tonn af þorski fyrir 939 tonn af loðnu, hlutfallið 0,076.

Björgúlfur EA bauð í þorskinn í norsku lögsögunni, 145 tonn, og lét í staðinn 101 tonn af þorski á Íslandsmiðum, hlutfallið er 0,7.