Átta strandveiðibátar á Patreksfirði, þar á meðal Kolga BA, eru á veiðum og ráðgera að fylla gám og aflann til Grimsby. Þetta er viðbragð þeirra við lágu fiskverði á innlendum fiskmörkuðum. Það babb kom þó í bátinn að Umbúðamiðlum, stærsti keraleigan á landinu, vill ekki leigja kör til útflutningsins, að sögn Einars Helgasonar skipstjóra á Kolgu. Einar var á sjó þegar hann var inntur eftir gangi veiðanna. Hann rær einn og er með þrjár rúllur.
„Þetta gengur bara fínt. Það hefur verið gott fiskirí hérna út um allt. Loðna var lengi yfir miðunum bæði í fyrra og núna og fiskurinn er alls staðar á veiðislóðinni og er vel haldinn. Það er misjafnt hve lengi ég hef verið að ná skammtinum. Ég fór út núna um fjögurleytið í nótt og kominn á landstím núna sex tímum síðar. En þetta hefur farið niður í fjóra tíma úr höfn í höfn,“ sagði Einar.
Hann var kominn með 774 kg af óslægðu. Hann hefur alveg sloppið við ufsa og segir hann ákveðna staði sem hann forðist til þess að lenda ekki í honum og smáfiski. Hann segir litlar tekjur að hafa af ufsanum en þó megi núna landa honum án þess að hann telji til strandveiðiafla. Verðin séu hins vegar langt niður úr öllu lagi.
„Það þarf að vera sæmilegt verð á ufsa til þess að maður fari að djöflast eftir honum. 20% af aflaverðmætinu fer til Hafró og það tekur því ekki verið að sækja hann núna þegar verðið er um 40-60 krónur á kílóið. Það er forsvaranlegt að sækja hann eitthvað þegar verðið er komið upp í 90-100 krónur.“
Hann segir verð á fiskmörkuðum mjög lág og það hafi verið skelfilegt að sjá verðin fyrsta dag veiðanna þegar fékkst 66 krónur fyrir kílóið af 2,2-2,7 kg þorsk. Stærri þorskur seldist á 100-135 krónur sem sé skelfilega lágt verð.
Þó brá svo við á mánudag að um og yfir 270 krónur fengust fyrir slægðan, stóran þorsk.
270 kr. skilaverð í Grimsby
Einar segir að nokkrir saman á Patreksfirði séu að fiska í gám sem stendur til að senda til Grimsby. „Við vorum að fá hringingu þess efnis að Umbúðamiðlun ætlar ekki að leigja okkur kör undir fiskinn. Við erum að reyna að ná sambandi við aðra karaleigu. Þetta er mjög sérstakt þar sem Umbúðamiðlun er stærsta karaleiga á landinu. Þeir setja það fyrir sig að það séu lélegar heimtur á körum. Svona útflutningur hefur verið stundaður árum saman og alltaf verið að flytja út fisk. Ég hélt að það væri einhver regla á þessu hjá þeim með skilin,“ segir Einar.
Þeir þurfa 40 440 lítra kör í gáminn. Í síðustu viku sendu strandveiðimenn frá Grundarfirði gám til Grimsby og fengu 370 krónur fyrir kílóið að meðaltali. Þetta þýðir skilaverð upp á 270 krónur á kílóið af slægðu.
55.000 kr. meira á bát
„Miðað við veiðar í tvo daga í gám gæfi þetta um 55.000 krónum meira á bát fyrir þessa tvo daga en 200 króna meðalverð á innlendum markaði gæfi okkur. Svo hátt meðalverð höfum við reyndar ekki séð ennþá á þessari vertíð. Innlendir fiskkaupendur virðast treysta á það að við fiskum þennan afla, hann komi inn á markaðinn og þeir sitji að honum á þessum verðum. Það kæmi mér ekki á óvart að þeir hafi sett þrýsting á Umbúðamiðlun um að leigja okkur ekki körin. Þeir hafa gert athugasemdir við útflutning af þessu tagi og á fundi með atvinnumálanefnd var gerð athugasemd um fyrirhugaðan útflutning strandveiðibáta og vísað meðal annars til þess að strandveiðar ættu ekki síst að tryggja aukið hráefni til íslenskrar fiskvinnslu yfir sumarmánuðina. En okkar sýn er sú að of mikið framboð hljóti að vera inni á mörkuðunum því ekki keppast fiskkaupendur við að kaupa fiskinn á eðlilegum verðum,“ segir Einar."
Fréttin var birt í Fiskifréttum þann 17. maí