Félag makrílmanna segist túlka dóminn, sem kveðinn var upp í héraðsdómi 27. janúar, þannig að það hafi verið bæði „málefnalegt og löglegt markmið með lagasetningunni að færa fjármuni frá smábátaútgerðum til uppsjávarútgerðanna til að kaupa þá síðarnefndu frá skaðabótamálshöfðunum vegna mistaka ráðherra árið 2011,“ að því er segir í tilkynningu frá félaginu.

„Málefnalegt er því að hengja lítinn bakara fyrir smið ef það þjónar fjárhagslegum hagsmunum ríkisins,“ segir ennfremur.

Það er Unnsteinn Þráinsson, formaður Félags makrílveiðimanna, sem undirritar tilkynninguna.

Einnig segir: „Félag makrílveiðimanna fór fram á að kvótasetning á makríl árið 2019 yrði dæmd ólögleg þar sem Alþingi ákvað að hafa viðmiðunartímabil veiðireynslu á makríl mun lengra en almenn lög gera ráð fyrir. Var þetta gert til að færa heimildir frá minni útgerðum til stærri útgerða sem unnu mál gegn ríkinu fyrir hæstarétti í lok árs 2018.“

Unnsteinn segir félagið nú fara yfir stöðu sína og íhuga hvort áfrýja eigi niðurstöðunni til Landsréttar.