Séraðgerða- og sprengjueyðingarsveit Landhelgisgæslunnar var kölluð út síðdegis í gær eftir að togari fékk tundurdufl í veiðarfæri skipsins. Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar óskaði eftir skipið færi þegar í stað til hafnar í Sandgerði og sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar voru sendir á staðinn.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni en í umfjöllun Aflafrétta kom fram að um er að ræða togarann Pálínu Þórunni GK.
Þegar togarinn var kominn til hafnar var skipið rýmt og sprengjusérfræðingarnir undirbjuggu flutning duflsins frá borði með sérstökum flothólkum og að lokum var duflið híft í sjóinn og dregið með slöngubát séraðgerðasveitar hálfan annan kílómetra frá höfninni.
Talið er að um 300 kíló af sprengiefni séu í duflinu. Afar sjaldgæft er að svo öflug dufl komi um borð í íslensk fiskiskip. Landhelgisgæslan kallaði út viðvörun á rás 16 þar sem bátar voru beðnir um að halda sig í tveggja sjómílna fjarlægð og frá innsiglingunni í Sandgerðishöfn.
Sveit Landhelgisgæslunnar kom duflinu fyrir á um 10 metra dýpi, hálfan annan kílómetra frá Sandgerðishöfn þar sem því verður eytt. Talið er að um þýskt dufl frá seinni heimsstyrjöld sé að ræða. Vegna sjólags og myrkurs var ákveðið að eyða sprengjuhleðslunni við betri aðstæður í dag.