Gunnar Tryggvason, hafnarstjóri Faxaflóahafna, segir óvissu um hönnun Sundabrautar hamla skipulagi á hafnarsvæðinu. Ekki hefur verið ákveðið hvort Sundabraut liggi um göng undir Kleppsvík eða um lágbrú þar yfir.
„Óvissan kostar óhagræðingu. Það kostar það að við getum ekki gert framtíðarplön,“ segir Gunnar.
Höfnin sé þó farin að gera áætlanir í samræmi við úttekt sem ráðgjafafyrirtækið Drewry Consulting gerði á því hvernig höfnin gæti hagað farmsvæðunum og þjónustu við skipafélög með tilliti til þess að lágbrú verði fyrir valinu enda myndu göngin ekki hafa mikil áhrif á höfnina.
Kostir við báðar lausnir
„Þannig að við erum að undirbúa okkur undir það sem hefur mest áhrif. Það gæti þó kannski verið besta leiðin fyrir höfnina að fá lágbrú ef það eru réttar fébætur fyrir það sem fer forgörðum og við fáum þróunarsvæði fyrir utan brú,“ segir Gunnar.
Lágbrú segir Gunnar að yrði góð að því leyti að hún myndi tengja hafnarsvæðið betur við baklandið sitt. „Kosturinn við göngin er að þau myndu ekki raska hafnarstarfseminni neitt á byggingartímanum,“ segir hann.
Faxaflóahafnir hafa nú sent formlegt erindi með ósk um viðræður um framhaldið.
„Það er tvennt sem við erum að leita eftir og segjum við Vegagerðina og borgina: Ekkert vera feimin að ræða við okkur. Það eru engar tilfinningar bundnar hafnarbökkum. Það er allt leysanlegt og við viljum vera lausnamiðuð,“ segir Gunnar.
Ef vilji sé til að fara ódýrari leiðina, sem sé lágbrúin, þá sé hægt að ræða um hvað sé eðlilegt að Faxaflóahafnir fái í bætur fyrir það sem fari forgörðum og fái síðan þróunarsvæði fyrir utan brú. „Þá erum við kannski betur stödd en fyrir,“ segir hafnarstjórinn.
Fái þá fé og meiri uppfyllingar
Hluti af framtíðaráætlunum felst í því að koma upp aðstöðu á Álfsnesi fyrir heilfarmaskip, eins og fyrir timburfarma og slíkt.
„Síðan væru uppfyllingar fyrir utan brú fyrir gámasvæðin. Við erum með heimild til uppfyllinga í dag sem myndi stækka farmsvæðin en við höfum lagt til breytingar á því,“ segir Gunnar.
Meðal þeirra fyrirtækja sem eru fyrir innan mögulegt brúarstæði eru Samskip, Byko og Húsasmiðjan auk þess sem frystitogarar landa þar. Óvissan er farin að hafa áhrif á þessi fyrirtæki.
Háspennutenging Samskipa í kæli
„Við ætluðum að fara að fjárfesta í háspennutengingu fyrir skip Samskipa til að landtengja skipin en sláum það af því við förum ekki að eyða peningum í dýrar háspennulagnir á svæði sem á að leggja af, ef það yrði niðurstaðan. Þannig að við getum ekki tekið þessi mikilvægu skref í umhverfismálum,“ segir Gunnar.
Nú þegar séu hins vegar tengingar fyrir stærstu skip Eimskips sem er með athafnasvæði sitt utan brúarlínunnar. „En við getum ekki gert það sama fyrir Samskip,“ bendir hafnarstjórinn á.
Spurður hvort fyrirtækin hafi sagst myndu gera kröfur um bætur verði brúin fyrir valinu segir Gunnar það ekki hafa verið ámálgað. „Það er ekki komið svo langt,“ segir hann. Væntanlega verði litið til ákvæða lóðaleigusamninga fari svo að lágbrúin verði fyrir valinu.
„En okkur finnst að það sé kominn tími á viðræður við Vegagerðina um þessa lausn og fébætur fyrir okkur,“ segir Gunnar.