Beint framlag sjávarútvegsfyrirtækja í Reykjavík og á Akranesi árið 2011 var 19,3% af beinu framlagi sjávarútvegs á landsvísu, að því er fram kemur í skýrslu Ásgeirs Friðriks Heimissonar hafgfræðinema sem hann vann fyrir Faxaflóahafnir og Íslenska sjávarklasann. Frá þessu er greint á vef Faxaflóahafna.
Niðurstöður Ásgeirs Friðriks eru um margt fróðlegar og einsýnt að áhrif sjávarútvegs á starfssvæði Faxaflóahafna sf., þ.e. í Reykjavík og á Akranesi, eru veruleg. Helstu niðurstöður hans eru meðal annars:
· Hlutfall sjávarútvegs af landsframleiðslu í Reykjavík og á Akranesi árið 2011 var 5,1%.
· Árið 2011 var 12,9% af afla Íslendinga landað í Reykjavík og á Akranesi, þar af 20,2% af botnfiskafla.
· Aflamark stærstu sjávarútvegsfyrirtækja í Reykjavík og á Akranesi fyrir fiskveiði árið 2011/2012 var 17,3% af úthlutuðu aflamarki í þorskígildium.
· Útflutningur sjávarafurða frá Reykjavík og Akranesi sem hlutfall af heildarútflutningi sjávarafurða voru árið 2011 37,5%.
· Um 1.900 manns starfa beint við sjávarútveg á höfuðborgasvæðinu sem er 21,1% af þeim sem starfa beint við sjávarútveg á landinu.
· Í heild voru u.þ.b. 12.800 til 19.800 störf sem mynduðust á stór höfuðborgasvæðinu vegna starfsemi sjávarútvegs árið 2011.