Á árlegum fundi samstarfsnefndar Íslendinga og Rússa um sjávarútvegsmál, sem haldinn var í Moskvu fyrr í þessari viku, var gengið frá veiðiheimildum Íslendinga í rússneskri lögsögu fyrir árið 2014 samkvæmt Smugusamningnum.
Alls koma 9.076 tonn af þorski í rússneskri lögsögu í hlut Íslands, þar af eru 5.672 tonn sem úthlutað er beint. Meðaflaheimild í ýsu vegna þess magns verður 8% eða sem nemur 450 tonnum. Meðaflaheimild í öðrum tegundum er líkt og áður 30% aflaheimilda í þorski að frádreginni ýsu.
Eftir er að semja um verð og meðaflaheimildir vegna 3.404 tonna sem íslenskar útgerðir hafa rétt til að kaupa af Rússum.
Þá var m.a. rætt um mikilvægi þess að Rússar verði aðilar að samkomulagi um stjórnun úthafskarfaveiða á Reykjaneshrygg. Af hálfu Íslands var lögð áhersla á að veiðistjórnun karfastofnanna á Reykjaneshrygg byggi á bestu vísindalegu þekkingu og ráðgjöf sem fyrir liggur.
Ákveðið var að tillögu Rússa að stefna að sérstökum fundi íslenskra og rússneskra vísindamanna á næsta ári til að efla vísindasamstarf ríkjanna um úthafskarfa og fleiri sameiginlega stofna, segir í frétt á vef atvinnuvegaráðuneytisins .