Ekkert bendir til annars en að rusl – og þá ekki síst plast – verði miklu meira vandamál í hafinu í náinni framtíð en það er í dag. Reiknað er með því að framleiðsla plastefna eigi innan fárra ára eftir að fjórfaldast frá því sem nú er. Að óbreyttu felast í þessu alvarlegar fréttir – því mengun í hafi er þegar orðið eitt stærsta viðfangsefni nútímans í umhverfislegu tilliti. Veiðarfæri eru hluti af vandamálinu, enda mikið til gerð úr plastefnum.

Þetta kom meðal annars fram í fyrirlestri Haraldar A. Einarssonar, fiskifræðings hjá Hafrannsóknastofnun, fyrir skemmstu. Hann fjallaði um þá staðreynd að stærsti hluti nútíma veiðarfæra eru gerð úr plastefnum. Tapist þau eða enda í hafi af öðrum orsökum verða þau að rusli sem rekur á fjörur, leggst á hafsbotninn eða rekur um höfin sem „drauganet“ áður en þau falla saman. Að lokum brotnar plastefnið niður í smá agnir en plastagnir eru taldar geta haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar í lífríki hafsins. Fyrirlesturinn var upphaflega unnin fyrir vinnufund hjá Norrænu ráðherranefndinni sem bar heitið - Clean Nordic Oceans - og var um töpuð veiðarfæri og rusl í hafi og var erindið samantekt á stöðu þessara mála við Ísland.

Lög og reglur
Haraldur fjallaði sérstaklega um lög og reglur sem hafa áhrif á það hversu mikið tapast af veiðarfærum hér. Í fyrsta lagi er skylda að merkja baujur og dreka, sem er talið stuðla að því að minna tapast af netum. Lengi hafa einnig verið takmarkanir á því hversu mörg net sjómenn mega hafa í hafi á hverjum tíma – bæði á bolfisk og grásleppuveiðum. Að baki þessu var ekki umhverfissjónarmið þegar reglan var sett, heldur að koma í veg fyrir að vinnuálag væri of mikið á netabátunum á sínum tíma. Áhrifin voru þó þau að menn komust frekar yfir það að vitja allra sinna neta í sjó og minni líkur því á því að þau töpuðust. Þá er skylt að fullreyna að ná töpuðum veiðarfærum við Ísland, en ef það lánast ekki er skylda að tilkynna það til Landhelgisgæslunnar að það hafi ekki tekist.

„Þessi regla hefur verið í gildi um nokkuð langt skeið, en ennþá hefur ekki ein einasta tilkynning borist til Landhelgisgæslunnar enn sem komið er,“ sagði Haraldur en bætti við að rafræn afladagbók var sett á laggirnar á sínum tíma og þar sé hægt að tilkynna um töpuð veiðarfæri. Fyrsta árið voru 300 net skráð töpuð, en lítið sem ekkert hefur verið skráð eftir það. Um mikla vanskráningu virðist vera um að ræða, og Hafrannsóknastofnun hefur ekki treyst sér til að setja þessi gögn fram þó vottunarstofur og fleiri spyrji frétta.

Hitt er að netaveiði er mun miklu minni en var – um árið 2000 voru dregin 1,5 milljón net við Ísland en þau eru í dag alla vega fimm sinnum færri. Þetta er ekki síst vegna þess að menn haga sínum veiðum á annan hátt en var. Tíminn sem net liggja í sjó er miklu styttri en áður, og þau oft dregin nokkrum klukkutímum eftir að þau eru lögð.

„Þetta veldur því að miklu ólíklegra er að sjómenn tapi netum en var fyrr á árum – þegar dregið var eftir eina eða tvær nætur. Við sitjum engu að síður uppi með það að vita ekki hvað mikið er að tapast af netum,“ sagði Haraldur.

Rússanet
Haraldur fjallaði um mikilvægi þess að veiðarfæri séu merkt, og æskilegt væri að samræmdar reglur væru í gildi um allan heim um hvernig þessu væri best háttað. Tap á veiðarfærum er risavaxið vandamál víða um heim, en þau reka oft á land á fjarlægum stöðum eftir langan tíma í hafi. Ef þau væru merkt væri hægt að sjá upprunann og vinna við að leysa vandamálið þar sem mikið er að tapast – öllum til heilla. Þetta á við hér sem annar staðar – veiðarfæri á vestfirskri fjöru geta vel hafa tapast við Rússland, en enginn veit það í raun. Íslenskir sjómenn, sem ganga vel um, eru því oft hafðir fyrir rangri sök og gagnrýndir fyrir sóðaskap þó ára og dagur sé síðan sjómenn hér við land losuðu sig viljandi við ónýt veiðarfæri með því að skilja þau eftir eða henda þeim í sjóinn.

Safna veiðarfærum?
Haraldur vakti máls á því hvort safna ætti töpuðum veiðarfærum í sérstökum leiðöngrum, ef vitað er hvar þau er að finna. Þetta er gert víða um heim, en upplýsingar hérlendar hafa safnast upp t.d. í hjá Hafrannsóknastofnun sem myndar hafsbotninn við upplýsingaöflun um botndýr.

Hann svaraði því til að það sé jafnvel ástæða til að gera slíkt á tilteknum svæðum, en ekki þar sem hafsbotninn er viðkvæmur fyrir frekara raski t.d. þar sem er kórall – en slík svæði myndu þola það illa ef lína eða net yrðu rifin upp af botninum.

Hins vegar sagði Haraldur gleðiefni að almenningur og félög safni rusli á fjörum – skráð eru um 20 tonn söfnuðust með þeim hætti á síðasta ári.

„Þeir sem hafa komið að slíkum söfnunum ber saman um að stór hluti af því sem safnast er frá fiskveiðum – frá skipum. Ég sakna þess samt að þetta sé skráð með skilvirkari hætti, svo hægt sé að rekja af hvaða toga vandamálið er,“ sagði Haraldur. „En sjómenn eru almennt mjög vel meðvitaðir um að henda ekki rusli í sjóinn en það er hægt að fullyrða að nær allt rusl sem fellur til úti á sjó kemur í land,“ sagði Haraldur en á hverju ári falla til um 2.800 tonn af veiðarfærum sem hafa skilað hlutverki sínu, samkvæmt mati frá árinu 2006. Af því eru 1.700 tonn af plastefnum. Nýtt mat bendir til að samsvarandi upplýsingar nú séu um 1.100 tonn af plastefnum sem falla til með þessum hætti og eru endurunnin.