Það er vopnahlé í makrílstríðinu. Við höfum nógan tíma. Allar tilslakanir núna geta reynst dýrkeyptar. Þetta er haft eftir Audun Maråk talsmanni norskra útvegsmanna í norska sjávarútvegsblaðinu  Fiskeribladet/Fiskaren í dag.

Í síðustu viku komu fulltrúar allra hagsmunaaðila í sjávarútvegi saman til fundar til þess að ræða stöðuna í makríldeilunni. Þar var skorað á norska sjávarútvegsráðherrann að hvika ekki í deilunni og bíða eftir refsiaðgerðum gagnvart Íslandi og Færeyjum sem Maria Damanaki sjávarútvegsstjóri Evrópusambandsins hefði boðað eftir áramótin.

Í blaðinu kemur fram að hagsmunaðilarnir óttist mest að ,,víkingaþjóðirnar” tvær fái að veiða makríl í lögsögum ESB og Noregs gegn því að þær dragi úr kvótakröfum sínum. Þeir segja að það myndi tryggja Íslandi og Noregi eilífan rétt til makrílveiða enda þótt makríllinn gengi út úr lögsögum þeirra. Jafnframt myndi slíkur aðgangur að lögsögum ESB og Noregs gera Íslendingum og Færeyingum kleift að veiða makrílinn á þeim tíma þegar hann er miklu verðmætari. Nægi þar að benda á að makrílverð í Noregi hafi verið allt að 15 norskar krónur kílóið í ár (jafngildi um 300 íslenskra króna). Íslendingar gætu þrefaldað verðmæti aflans með aðgangi að lögsögum ESB og Noregs, sagði Audun Maråk.