Ísfélag Vestmannaeyja hefur fengið leyfi sjávarútvegsráðuneytisins til tilraunaveiða á spærlingi. Beinar veiðar hafa ekki verið stundaðar við Ísland frá því á áttunda áratug síðustu aldar. Eyþór Harðarson útgerðarstjóri hjá Ísfélaginu, segir þó alls óvíst hvort yfirleitt verði farið á þessar veiðar.

Í einum síldartúra Sigurðar VE, uppsjávarskips Ísfélagsins, út af Reykjanesi var síldin blönduð spærlingi. Þá vaknaði sú hugmynd hvort vit væri í því að kanna þetta frekar. Leyfi til tilraunaveiða fékkst í þrjá daga í desember og fari þær fram verða þær í samráði við Hafrannsóknastofnun og Fiskistofu, en www.eyjar.net greindu fyrst frá málinu.

Eyþór segir að það ráðist af framvindu kolmunnaveiða og veðurs hvort af verður.

Sú var tíðin að mikið var veitt af spærling í Norðursjó og komst aflinn í tæplega 900 þúsund tonn árið 1974. Á síðari árum hefur mjög dregið úr aflanum og var hann 55.000 tonn  árið 2010.

Spærlingur var veiddur í töluverðum mæli úti fyrir suðurströnd Íslands á áratugnum milli 1970 og 1980 og fór hann í bræðslu. Mestur varð ársaflinn 35 þúsund tonn árið 1978. Mikill meðafli fylgdi veiðunum og voru þær að lokum stöðvaðar. Spærlingur þykir mikilvæg fæða þorsks og ufsa og eru beinar veiðar á honum því bannaðar við Ísland. Heildarveiði í Norður-Atlantshafi nam um 36.000 tonnum árið 2018.

Kolmunnaveiðar ganga treglega

Eyþór segir að kolmunnaveiðar í færeysku lögsögunni hafi gengið treglega að undanförnu. Einn túr hafi tekið hátt í tvær vikur. Heimaey VE er á heimleið með tæp 2.000 tonn eftir tæpar tvær vikur að veiðum. Sigurður VE er á svæðinu og var kominn með um 1.500 tonn. Brælur hafa sett strik í reikninginn og Færeyingar hafa auk þess lokað svæðum svona smáfisks. Menn hafa því þurft að þvælast um lögsöguna að leita að fiski. Einnig hafa skipin farið suður fyrir lögsöguna þar sem eitthvað fannst af kolmunna en menn telja sig hafa misst hann inn í skosku lögsöguna. Menn hafa þó ekki gefið upp alla von og Eyþór bendir á að oft hafi veiðst ágætlega í janúar. Skip Ísfélagsins eru með 10-12 þúsund tonna heimildir í kolmunna.

„Við erum bjartsýnir á loðnuvertíð. Það eru ákveðin rök sem styðja það. Það eru líka vísbendingar um að loðnan sé að braggast og jafnvel farin að sýna sig.”

Fyrr á árinu árinu setti Ísfélagið upp fjóra tanka við höfnina sem setja nú mikinn svip á umhverfið. Landað verður í tankana úr uppsjávarskipunum sem dregur úr frátöfum þeirra frá veiðum og skapar betra flæði í vinnslunni. Eyþór segir náttúrulega enga reynslu vera komna á þetta fyrirkomulag og hún fáist ekki fyrr en loðnuvertíð er komin á fullt. Menn eru tilbúnir og klárir jafnt í landi sem á sjó um leið og vertíðin hefst.