Breskur kaupsýslumaður, Michael Redhead að nafni, hefur verið dæmdur í sex mánaða fangelsi og 15 milljóna króna sekt fyrir að blekkja almenning með því að stuðla að fölskum merkingum á fiskafurðum sem seldar voru í Iceland matvörukeðjunni í Bretlandi.
Redhead þessi gerði samkomulag við breskt fyrirtæki, Kirwin Brothers Ltd., um að framleiða afurðir úr fisktegundinni Atlantic Seabass til sölu í Iceland búðunum.
Þegar þessi fisktegund hækkaði í verði tilkynnti breski kaupsýslumaðurinn framleiðendunum að ekkert væri því til fyrirstöðu að nota ódýrari seabass tegundir og merkja þær Atlantic Seabass enda þótt hann hefði fengið staðfestingu á því frá yfirvöldum að slíkt væri ekki heimilt. Þetta háttarlag stóð yfir á árinu 2012 og 2013 og voru 400.000 pakkningar ranglega merktar að verðmæti 1,1 milljón sterlingspunda eða jafnvirði 220 milljóna íslenskra króna. Varan var seld í 600 Iceland verslunum víðs vegar um Bretland.
Greint er frá þessu á sjávarútvegsvefnum fis.com