Nýverið kom út hjá Sögur útgáfa bókin Fangar Breta eftir Sindra Freysson, þar sem raktar eru magnaðar sögur þeirra tæplega fimmtíu Íslendinga sem Bretar handtóku á stríðsárunum og settu í fangelsi í Bretlandi. Hér birtist einn kafli úr bókinni með góðfúslegu leyfi höfundar og útgefanda.

7.

Pétur fékk hins vegar þau svör að leyniþjónustan gæti ekki fallist á að veita Guðmundi fararleyfi til Íslands. Þetta jók erfiðleika Péturs til muna:

„Gallinn við þessa „leyniþjónustu“ er sá að erlendum fulltrúum er alls ekki leyft að setja sig í beint samband við hana. Verður því allt að fara í gegnum Home Office, og jafnvel þótt það takist að vinna þann embættismann, sem þar starfar að málinu, á sitt band, er trauðla hægt að vekja hjá honum þann eldmóð sem með þarf til að snúa þeim í leyniþjónustunni. Það er vert að hafa í huga, að þúsundir útlendinga eru undir sömu sökina seldir, og það er erfitt fyrir þessa embættismenn að sjá af mikilli meðaumkun fyrir hvern einstakan.“

Til að reyna að koma til móts við kröfur Breta freistaði Pétur þess að útvega Guðmundi atvinnu ytra, sem reyndist ekkert áhlaupsverk. Jafnframt hélt hann áfram tilraunum til að fá hann látinn lausan eða sendan til Íslands. Pétur sendi áðurnefndum Cochrane þakkarbréf í októberlok fyrir aðstoð í máli Guðmundar, og bætti við:

„Ég kann auðvitað vel að meta ef hægt væri að sleppa honum til að gegna störfum hérlendis, öðrum en sjómennsku. Hann er algjörlega tilbúinn til að vinna hvaða starf sem er, svo lengi sem hann fær frelsi, og ég er núna að leita að einhverju fyrir hann að gera. En ég vil spyrja þig hvort ekki sé hægt að sleppa Guðmundi á meðan sú leit stendur yfir … Ég viðurkenni að ég á erfitt með að skilja kröfur leyniþjónustunnar um að kyrrsetja Guðmund í Bretlandi og það er mjög erfitt fyrir mig að útskýra þau mál nægjanlega fyrir stjórnvöldum á Íslandi. Ef leyniþjónustan óskar þess að halda honum frá siglingum er minnsta mál að tryggja það á Íslandi. Við gætum ekki aðeins fengið samþykki Guðmundar sjálfs (og á það má minna að hann hefur um árabil gegnt ábyrgðarstöðu hjá mjög virðulegu skipafélagi), heldur mætti setja þau skilyrði að hann gegndi aðeins starfi sem samþykkt væri af breska sendiherranum á Íslandi og breskum hermálayfirvöldum.“

Pétur kvaðst ekki vita hvaða sannanir breska leyniþjónustan hefði um grunsamlegt athæfi Guðmundar í Noregi, en honum þætti skýringar hans sjálfs afar trúverðugar:

„Á Íslandi þætti það mjög eðlilegt ef yfirmenn á skipi, sem væri að landa eða lesta í lítilli höfn, þægju boð um að verja dagsparti á sveitabæ í næsta nágrenni, og ég geri ráð fyrir að sama máli gegni í Noregi.“

Jarlinn EA sem var í eigu Óskars Halldórssonar.
Jarlinn EA sem var í eigu Óskars Halldórssonar.

8.

Pétur kvaðst telja röksemdirnar fyrir að láta Guðmund lausan vera svo þungvægar að hann yrði enn og aftur að biðja ráðuneytið um að endurskoða afstöðu sína. Óvíst er hvort hann hafi bundið miklar vonir við að þeirri beiðni yrði sinnt, en nú bar svo við að óvænt hreyfing komst á breska báknið. Þann 13. nóvember 1940 sendi Pétur yfirboðurum sínum skeyti um að breska innanríkisráðuneytið hefði lofað að láta Guðmund lausan, en hann mætti þó ekki fara úr landi eða fá skipsrúm. Guðmundur mældi því breskar götur næstu mánuði, frjáls maður en atvinnulaus, auralítill og fjarri heimahögum. Ekki fyrr en í lok janúar 1941 fékk hann leyfi til að munstra sig sem 2. stýrimann á danskt skip, e.s. Diana, og gat siglt alls hugar feginn frá Englandi. Honum var þó meinað að halda til Íslands í bili. Guðmundur hafði þá setið fimm mánuði í fangelsum Breta í sprengjuregni og verið kyrrsettur í Englandi tvo mánuði til viðbótar.

9.

Guðmundur réði sig síðar sama ár sem stýrimann á línuveiðarann Jarlinn, þá í eigu útgerðarmannsins og síldarspekúlantsins Halldórssonar, betur þekktur sem Íslandsbersi. Seint í ágúst 1941 hélt Jarlinn frá Ísafirði fullhlaðinn fiski og sigldi til Englands með viðkomu í Vestmannaeyjum, þar sem meiri fiskur var sóttur. Jarlinn landaði í Fleetwood og lét úr höfn þaðan 3. september. Þegar Jarlinn öslaði frá Englandi, fimmtíu ára gamalt skip sem tvímælalaust var búið að lifa sitt fegursta, var hann svo drekkhlaðinn að þrautreyndum sjómönnum blöskraði. Þeir báðu þess sem heitast að hann hreppti ekki óveður á heimleiðinni:

„Lestar skipsins höfðu verið fylltar af salti, lúkarinn fylltur af veiðarfærum og tógi og kolapokum hafði verið raðað á dekkið. Meira að segja voru slíkir pokar kringum björgunarbáta á bátapallinum. Þá poka áttu skipverjarnir sem fengu jafnan að kaupa kol fyrir sjálfa sig í túrum einsog þessum. Var skipið svo hlaðið að það vatnaði inn á dekkið.“

Veðrið snarversnaði von bráðar og þegar siglt var fram hjá syðstu eyju Skotlands, Barra Head, var skollið á aftakaveður; bálhvasst og haugasjór. Togarinn Arinbjörn hersir sigldi fram úr Jarlinum um líkt leyti, en eftir það spurðist ekkert til skipsins. Margir héldu lengi vel að veðurofsinn hefði grandað ofhlöðnum og aldurhnignum Jarlinum, en öðrum þótti trúlegra að banvænum stríðstólum væri um að kenna. Nýja dagblaðið sagði t.d. fullum fetum þegar Jarlinn var loks talinn af, þremur vikum eftir brottförina frá Englandi, að „eitt íslenska skipið enn hefur orðið kafbátunum að bráð“. Og þrátt fyrir að margir áratugir liðu áður en skýring fékkst á hvarfi skipsins, reyndist rétt hjá blaðinu að ástæðan var önnur og óhugnanlegri en válynd náttúruöflin.

Guðmundur Matthíasson Þórðarson.
Guðmundur Matthíasson Þórðarson.

Eftir tveggja daga siglingu varð skipið á vegi þýska kafbátsins U-141 og örlög þess voru ráðin. Tilviljunarkennt stefnumót þeirra varð undir miðnætti 5. september og í kvöldmyrkrinu gaf skipstjóri kafbátsins, Philipp Schüler, skipun um að skjóta á línuveiðarann. Tundurskeytið hitti Jarlinn miðskips – hann sökk strax í hafið með allri áhöfn, um 200 kílómetra norðaustur af Rockall-klettadranginum. Alls fórust ellefu manns, þar á meðal Guðmundur. Einn skipverja var Óskar Theódór, sonur Óskars útgerðarmanns, einungis 23 ára gamall, og varð andlátið til þess að nokkrum árum síðar stofnaði faðir hans vaxmyndasafn í minningu piltsins, sem hafði m.a. að geyma vaxmyndir af þeim feðgum í fullri stærð.

Þýskur U141 kafbátur eins og grandaði Jarlinum með allri áhöfn.
Þýskur U141 kafbátur eins og grandaði Jarlinum með allri áhöfn.

Philipp Schüler, skipstjóri þýska kafbátsins.
Philipp Schüler, skipstjóri þýska kafbátsins.

10.

Guðmundur Matthíasson Þórðarson skildi eftir sig í Kaupmannahöfn eiginkonu, Karen Margrethe Larsen og sex ára gamlan son, Matthías. Við andlát hans hafði fjölskyldan verið aðskilin í tæpt eitt og hálft ár eftir hernám Danmerkur. Þegar þýska tundurskeytið banaði Guðmundi og öðrum skipverjum Jarlsins voru aðeins tæpir tíu mánuðir liðnir síðan hann losnaði úr bresku fangelsi. Sekur um það eitt að hafa þegið heimboð norskrar fjölskyldu skamma dagsstund, og fyrir vikið legið undir grun um að vera á bandi Þjóðverja.