Nýverið kom út hjá Sögur útgáfa bókin Fangar Breta eftir Sindra Freysson, þar sem raktar eru magnaðar sögur þeirra tæplega fimmtíu Íslendinga sem Bretar handtóku á stríðsárunum og settu í fangelsi í Bretlandi. Hér birtist einn kafli úr bókinni með góðfúslegu leyfi höfundar og útgefanda.
4.
Pétur heimsótti Guðmund líka í Pentonville-fangelsið til þess að fá sem gleggsta mynd af sögu hans og rás atburða. Guðmundur kom Pétri vel fyrir sjónir:
„Mér sýnist hann vera alvörugefinn og harðduglegur sjómaður … Ég fékk þá tilfinningu meðan á samtalinu stóð að hann hafi ekki minnstu glóru um hvers vegna honum er haldið innilokuðum.“
Pétur skrifaði Cochrane nokkrum, lögmanni hjá útlendingadeild innanríkisráðuneytisins, í kjölfarið og spurði hvort verið gæti að Guðmundur hefði verið fangelsaður sökum misskilnings:
„Það var nýbúið að afskrá hann af dönsku skipi og það gerist stundum að þeir sem hafa takmarkaða þekkingu á alþjóðastöðu Íslands haldi að Íslendingar séu danskir þegnar. Án þess að vita hvort þetta sé ástæðan að baki fangelsun Guðmundar, fannst mér rétt að nefna þennan möguleika, sem ég tel að gæti verið líklegasta ástæðan fyrir þessu máli. Ef það er einhver önnur ástæða og alvarlegri fyrir því að halda Guðmundi áfram föngnum, bið ég þig vinsamlegast að upplýsa mig þar að lútandi.“
5.
Eftir langt þóf tókst Pétri loks að fá þá skýringu frá breska innanríkisráðuneytinu ekki væri hægt að sleppa Guðmundi til Íslands „í ljósi skýrslu sem okkur hefur borist um athafnir hans á meðan skip hans hafði við dvöl í Noregi“. Pétur fékk ekki nánari útlistanir frá ráðuneytinu í bili og skömmu síðar var Guðmundur fluttur í að fangelsi í Liverpool. Pétur óskaði eftir því að Guðmundur gerði grein fyrir gjörðum sínum í Noregi, í von um að skilja ástæður fangelsunarinnar betur. Guðmundur svaraði um hæl og rakti það helsta sem á daga hans hafði drifið meðan skip hans var í höfn í sjávarþorpinu Skaland, um sjötíu kílómetra suðvestur af Tromsö:
„Dag einn var ég í landi ásamt skipstjóranum og brytanum og tókum þá tali stúlku sem bjó í þessum litla bæ. Um leið og hún heyrði að við værum á dönsku skipi og allir Norðurlandabúar bauð hún okkur að heimsækja bóndabæ föður síns. Við þrír fórum þangað og dvöldum um stund með foreldrum hennar og bróður. Okkur var boðinn kaffisopi og þau voru afar gestrisin einsog fólk í dreifðari byggðum Noregs er yfirleitt. Bróðir hennar bauð okkur í afmæli sitt tveimur dögum síðar. Við brytinn fórum þangað þann dag og gáfum þeim sígarettur, en á þeim var skortur í Noregi á þessum tíma, og þar sem þetta er talsvert stórt býli og margt að sjá fyrir sjómenn vörðum við heilum degi þarna. Annað hafði ég ekki saman við það fólk að sælda. Síðar meir frétti ég að breskur herforingi sem hafði séð okkur heimsækja bóndabæinn hafði greint liðsmanni flotans, sem var um borð í skipinu okkar, frá þessu atviki og spurt hvort við værum í áhöfninni [hvergi í frásögn Guðmundar er getið um dagsetningu heimsóknarinnar, en þessi þáttur hennar bendir til að hún hafi átt sér stað fyrir hernám Þjóðverja á Noregi 9. apríl, eða næstu vikur á eftir á meðan breskt herlið barðist enn í Noregi]. Það hlýtur að hafa verið gerð skýrsla um málið því að þegar við komum til Glasgow vorum við brytinn handteknir en ekki skipstjórinn. Ég er ekkert viðriðinn stjórnmál eða stjórnmálaflokka, þannig að ég á bágt með að skilja af hverju ég, Íslendingur frá landi sem er nú undir vernd Breta, er lokaður inni í fangelsi mánuðum saman. Mér skilst að hægt yrði að sleppa mér ef ég væri tilbúinn að vinna eitthvað annað starf en sjómennsku. Ég fellst á það. Ég óska þess að losna úr fangelsi. Það verður skelfilegra með hverjum deginum sem líður að vera hér innilokaður, ekki síst vegna loftárásanna. Sprengjurnar falla alls staðar hérna og bara um daginn féll sprengja á fangelsið og allmargir fórust.“
6.
Þetta var sakleysisleg lýsing á hversdagslegri heimsókn og virtist engan veginn til þess fallin að réttlæta fangavist, að mati Péturs. Hann freistaði þess því að fá Breta til að taka til athugunar þá hugmynd að láta Guðmund lausan, ef hann fengi atvinnu í Bretlandi við annað en siglingar, t.d. við landbúnað. Pétur benti Bretum þó jafnframt á að alveg jafn öruggt væri að hleypa honum til Íslands með slíkt skilyrði í farteskinu:
„Ég kann að meta tillöguna en er hræddur um að það gæti reynst ákaflega erfitt að finna einhverja sæmilega vinnu í landi fyrir útlending, mann sem hefur eytt nánast öllu lífinu á sjónum og er þar að auki að koma beint úr fangelsi, jafnvel þó svo að honum hafi verið haldið þar samkvæmt Alien Act. Þess vegna vil ég kanna hvort ekki væri unnt, einkum í ljósi þess að breska setuliðið er á Íslandi og öll samskipti til og frá Íslandi eru nú ritskoðuð af Bretum, að leyfa Guðmundi að fara þangað með því skilyrði að hann ráði sig ekki á skip sem sigli til útlanda, eða jafnvel ekki á skip yfirhöfuð. Ég myndi auðvitað kjósa það fyrrnefnda, því það myndi gera Guðmundi kleift að ráða sig á strandskip eða lítið fiskiskip. En ef leyniþjónustan krefst þess að hann komi ekki nálægt sjómennsku býst ég við að hann gæti fundið eitthvert starf í landi.“
Framhald síðar í dag.