Löndun stóð sem hæst þegar spjallað var við Jón Axelsson skipstjóra á Álsey VE. Þetta nýja djásn í flota Ísfélags Vestmannaeyja kom úr sínum öðrum loðnutúr í byrjun vikunnar með um 1.995 rúmmetra sem er líklegast nálægt 1.700-1.800 tonnum af hrognafullri loðnu.
Ólíklegt er að Álsey fari fleiri loðnutúra á þessari vertíð. Sigurður VE var kominn á miðin og líklegt að hann tæki afganginn af loðnukvóta Ísfélagsins.
„Við fengum þetta í þremur köstum út af Öndverðarnesi. Lestarnar eru rúmmetramældar en það erfitt að henda reiður á hvað farmurinn af hrognafullri loðnu vegur. Við dælum aflanum rólega og frekar blautum í lestarnar til að skemma ekki hrognin. Þess vegna reikna ég með að 10-15% af massanum sé sjór,“ segir Jón.
Líklega á lokametrunum
Hann segir að þessi loðnuvertíð sé líklega alveg á lokametrunum og kominn mjög góður þroski í hrognin. Loðnan sé alveg á steypirnum. Annars hafi verið töluvert að sjá og víða orðið vart loðnu þótt oft hafi hún sést í meira magni.
„Ég hugsa að við höfum rétt misst stærsta hluta þessarar göngu yfir í Breiðafjörð. Þar er hún lögst og býr til ungviði. Ég býst við að þar sé í gangi góð hrygning núna sem veit á gott. Þetta eru líklega nokkrar göngur og þær koma nokkuð dreift inn í fjórum til fimm kösum. Ég gæti trúað að við höfum verið að veiða úr göngu tvö í fyrri túrnum og þriðju göngunni í síðasta túr. Svo er loðna víða að ganga með suðurströndinni. Það hefur orðið vart dreifðrar loðnu í Meðallandsbugt og víða í fjörunum á Suðurlandi.“
En er þá ekki blóðugt að þurfa að hætta nú þegar leikar standa hæst?
„Þetta hefur verið fín vertíð og allir verið í góðri veiði þegar þeir koma á miðin. Það er alltaf fúlt að þurfa að hætta en aðalgangan er auðvitað lögst. Við verðum líka að hlusta á fiskifræðingana og ganga varlega um þessa auðlind.“
Kjarakaup í Álseynni
Jón er ánægður með nýju Álseyna. Hún sé fallegur, öflugur og lipur bátur. „Hún er með öflugan vél- og nótarbúnað. Þetta er öflugt togskip sem er vel hannað til gangs og sparneytið á olíu. Þetta hefur verið eitt af aflahæstu skipunum í gegnum árin í Noregi og alltaf komið með gæðahráefni í land. Ég myndi segja að Ísfélagið hafi gert kjarakaup og ber að líta til þess að skipið var líka endurbyggt að stórum hluta árið 2018.“
Áhöfn Álseyjar kemur af togaranum Ottó N. Þorlákssyni VE og segir Jón hana hafa verið fljóta að aðlagast nýjum veiðiskap. „Ég hef auðvitað verið við þetta í 40 ár og svo hafði ég norska stýrimanninn með mér í þessum tveimur túrum. Hann leiðbeindi strákunum þegar við lögðum nótina. Þetta gekk eins og í sögu. Þessir togarastrákar eru hörkunaglar og þeir eru fljótir að læra. Ekki vantaði heldur áhugann enda eftir einhverju að slægjast.“