Freydís Vigfúsdóttir, sem nú er að undirbúa nýtt þverfaglegt meistaranám í sjávarauðlindafræði við Háskóla Íslands, segir bæði Háskólann og íslensku þjóðina hafa alla burði til þess að fræða heiminn um sjávarútveginn og sjávarauðlindina.

„Við höfum unnið þetta í samstarfi við Háskólann á Akureyri og þeir eru að kenna tvo kúrsa hjá okkur,“ segir Freydís. Auk hennar hafa þau Daði Már Kristófersson og Ásta Dís Óladóttir umsjón með þessari nýju námslínu, en kennsla hefst í haust.

Kennt verður á ensku enda námið ætlað erlendum nemendum ekki síður en íslenskum.

„Íslenski markhópurinn verður aldrei stór en með því að hafa námið alþjóðlegt getum við boðið uppá það fyrir breiðan hóp hérlendis.“ segir Freydís.

Í kynningu segir að hraður vöxtur sjávarútvegsfyrirtækja hér og sterk staða þeirra ásamt aukinni þekkingu innan greinarinnar gefi sérstakt tilefni til að bjóða upp á nám á þessu sviði hérlendis fyrir alþjóðlegan markhóp.

Ákall úr atvinnulífinu

„Við sjáum það núna að við, bæði sem þjóðfélag og líka Háskólinn, höfum ekki bara burði til að halda úti svona námi heldur er líka ákall eftir því úr atvinnulífinu,“ segir Freydís.

Námið er hugsað fyrir alla þá sem hafa hug á að starfa hjá „sjávarútvegsfyrirtækjum, ráðuneytum og sérfræðistofnunum, sveitarfélögum, ráðgjafafyrirtækjum, alþjóðastofnunum, félagasamtökum, hagsmunasamtökum og stjórnmálaflokkum“ – eins og það er orðað í kynningu.

„Við búumst fastlega við því að nemendur sem koma úr sjávarútvegsfræðinni fyrir norðan komi til með að sækja um þetta nám hér hjá okkur,“ segir Freydís. „Námið fyrir norðan er raunvísindamiðaðra þannig að þetta gefur þeim tækifæri til að læra meira hér um allt það sem þú gerir í landi, um stjórnun, lögfræði hafsins og hagfræðina til dæmis, þannig að þetta verður mjög góður stökkpallur fyrir þessa krakka sem klára grunnnámið fyrir norðan.“

Námið er á vegum Umhverfis- og auðlindadeildar Háskóla Íslands, en er þverfaglegt og öll fræðasvið skólans standa að kennslunni og geta nemendur úr ýmsu grunnámi sótt um. Sjávarauðlindafræðin hefur reyndar áður verið í boði innan deildarinnar sem rannsóknartengt meistaranám en nú er í fyrsta sinn boðið upp á það námskeiðabundið.

Umsóknir teknar að berast

Umsóknir eru þegar teknar að berast. Þann 1. febrúar rann út umsóknarfrestur fyrir nemendur utan Norðurlandanna, en 15. apríl rennur síðan út umsóknarfrestur fyrir nemendur frá Íslandi og hinum Norðurlöndunum.

„Fljótlega eftir það sjáum við hver aðsóknin verður. Ég hef enga trú á öðru en að íslenskir nemendur úr breiðum hópi hafi hug á þessu, enda atvinnutækifærin svo víða.“

Gert er ráð fyrir að nemendur verði um 20 á ári hverju, sem er svipað og verið hefur á öðrum sambærilegum námsbrautum í meistaranámi innan Umhverfis- og auðlindafræðinnar við Háskóla Íslands.

Nýsköpun og tækni

Freydís segir ákallið ekki bara koma úr sjávarútvegsfyrirtækjum sjálfum heldur sé ekki síður þörf fyrir þekkingu á sjávarútveginum annars staðar, og þá ekki síst í tækni- og nýsköpunarfyrirtækjum af ýmsu tagi.

„Slík fyrirtæki, eins og Marel og Kerecic, hafa verið í örum vexti vilja fá til sín fólk sem hefur ekki bara þá verkþekkingu að geta búið til róbot eða plástra úr fiskroði heldur hafa líka einhverja grunnþekkingu á sjónum. Svo hafa sjávarútvegsfyrirtækin staðið sig mjög vel og hafa verið í vexti. Þau vilja fá einstaklinga sem eru hagfræði- eða lögfræðimenntaðir og hafa um leið eitthvert vit á sjávarútvegi. Þetta er meðal annars hugmyndin á bak við þetta nám.“

Framlag okkar

„Við erum ekki síst að bjóða þetta á alþjóðavísu vegna þess að við teljum að sem þjóð, fiskveiðiþjóðin, höfum við þetta fram að færa til alþjóðasamfélagsins. Við höfum bæði reynslu og þekkingu og framtíðarsýn sem gæti verið öðrum þjóðum til ábáta að fara eftir og læra af.“

Hún segir vissulega hafa verið gerð mistök í íslenskum sjávarútvegi, og þá bæði í fiskveiðistjórnun og fyrirtækjarekstri, auk annars.

„En við erum samt komin mjög langt, og á þessum 60 til 70 árum eða svo sem eru liðin frá því við fórum virkilega að taka skriðsund í þessum málum þá erum við komin ekki bara mjög framarlega heldur fremst meðal jafningja. Þetta sér maður á rekstri sjávrútvegsfyrirtækja hér í landinu. Þau standa mjög framarlega, og svo ekki síður sjávarvísindin. Við eigum hér Hafrannsóknastofnun og þar inni er mikið af hæfileikaríku fólki og án þeirra væri okkar fiskveiðistjórnun ekki eins góð og hún er. Þær vísindaupplýsingar sem koma frá sjávarlíffræðingunum þar og haffræðingum eru undirstaða ábyrgrar og sjálfbærrar sjávarnýtingar. Þetta það sem við höfum fram að færa.“

Aukið námsframboð

Framboð á sjávarútvegstengdu námi aukist töluvert hér á landi undanfarin ár. Við Háskólann á Akureyri hefur grunnám í sjávarútvegsfræðum verið í boði frá árinu 1990. Háskólinn í Reykjavík býður upp á nám í haftengdri nýsköpun, sem kennt er í Vestmannaeyjum, og er þetta einnig grunnnám.

Meistaranám hefur síðan verið í boði við Háskólasetur Vestfjarða á Ísafirði, og þar er hægt að sérhæfa sig í haf- og strandsvæðastjórnun, sjávarbyggðafræði og sjávartengdri nýsköpun. Kennslan á Ísafirði fer fram í samstarfi við Háskólann á Akureyri.