Makrílveiði er hafin í íslenskri lögsögu. Börkur NK var á meðal þeirra skipa sem hófu veiðar þar. Í morgun voru níu skip þar að veiðum en þeim fer hratt fjölgandi og um hádegisbil voru þau um fimmtán talsins.

„Við byrjuðum að veiða í Rósagarðinum fyrir einum og hálfum sólarhring en erum nú að veiðum austan við Verkamannabankann. Skipin sem hér eru hafa verið að fá 70-200 tonn í holi og þetta er makríll af stærstu gerð. Við vorum að dæla holi sem var 174 tonn og meðalþyngd fisksins var 574 grömm. Við erum búnir að taka fjögur hol og komnir með 400 tonn. Það hefur verið heldur lítið um að vera úti í Smugu og þess vegna er allur flotinn að koma þaðan,” sagði Hjörvar í samtali við tíðindamann heimasíðu Síldarvinnslunnar.

Beitir NK kom með 1.150 tonn til Neskaupstaðar úr Smugunni í gærmorgun. Ólafur Gunnar Guðnason skipstjóri sagði að það væri mikil síld í aflanum eða um 400 tonn. Hann fagnaði því mjög að veiði væri hafin í íslensku lögsögunni enda væri mikill munur að þurfa einungis að fara 130 mílur á miðin í staðinn fyrir 350 mílur.