Þegar þvingunaraðgerðir ESB gegn Færeyingum vegna síldardeilunnar taka gildi kemur upp sú staða að færeysk skip eru útilokuð frá dönskum höfnum ef síld er í afla þeirra.

Á þetta er bent á á fréttavefnum epn.dk og vitnað í skriflega yfirlýsingu danska matvælaráðherrans, Mette Gjerskov. Ráðherrann segir að ESB hafi gengið alltof hart fram og beitt þvingunaraðgerðum áður en allar leiðir til samninga hafi verið reyndar.

Í fréttinni segir að þvingunaraðgerðir ESB feli í sér að færeysk skip geti ekki landað síld til vinnslu í ESB-ríkjum og einnig er innflutningur bannaður á síldarafurðum frá Færeyjum til ESB.

Danir greiddu atkvæði gegn þvinguninni en eru þó bundnir af ákvörðuninni eins og öll önnur ESB-ríki.

Þvingunaraðgerðir ESB hafa hlotið hörð viðbrögð margra danskra stjórnmálamanna. Þeir segja það óþolandi að færeyskum skipum með danska ríkisborgara innanborðs skuli vera meinaður aðgangur að dönskum höfnum.

Þá er bent á að störf í Hirtshals, Hanstholm og Esbjerg séu í hættu fái Færeyingar ekki að land þar síld til vinnslu.