Jacob Vestergaard sjávarútvegsráðherra Færeyja kveðst ekki geta sætt sig við að Færeyingum sé boðið sama hlutfall úr makrílstofninum og Íslendingum. Þetta kemur fram í bréfi sem Vestergaard ritaði Maríu Damanaki sjávarútvegsstjóri Evrópusambandsins í gær og birt er á vef færeyska útvarpsins.
Óstaðfestar heimildir herma að Færeyingum hafi verið boðin 11,9% kvótans eða það sama og Íslendingum. Vestergaard vill ekki staðfesta neinar tölur en tekur fram í bréfinu að tilboðið sé mun lægra en þau 15% sem Færeyingar telji að þeim beri.