Fram er komið lagafrumvarp frá færeysku stjórnarflokkunum um nýja skipan fiskveiðistjórnunar, þar sem meðal annars eru gerðar tillögur um kvótauppboð á einstökum fisktegundum. Greint er frá þessu á vef færeyska útvarpsins.
Hvað varðar botnfisk í færeyskri lögsögu er gert ráð fyrir að sá hluti kvótans sem er umfram ákveðna tonnatölu skuli boðinn upp. Það þýðir til dæmis að fyrstu 10.000 tonnin af leyfilegum þorskafla verða ekki boðin upp en það sem umfram er fer á uppboð. Sé heildarkvóti þorsks til dæmis ákveðinn 15.000 tonn fara þannig 5.000 tonn á uppboð eða þriðjungurinn af heildinni.
Um botnfiskkvóta Færeyinga í erlendum lögsögum segir að bjóða skuli upp þann kvóta sem er umfram meðalafla síðustu 10 ára á viðkomandi veiðisvæðum. Meðalkvóti Færeyinga af botnfiski í lögsögum Rússa og Norðmanna og við Svalbarða á árabilinu 2007-2016 var 22.000 tonn. Heildarkvótinn á þessum svæðum á árinu 2016 nam 31.000 tonnum. Það þýðir að 8.000 tonn yrðu boðin upp samkvæmd þessari reglu eða sem svarar fjórðungi heildarkvótans í fyrra.
Um uppsjávarfiskinn eiga hins vegar að gilda allt aðrar reglur. Samkvæmt frumvarpinu yrðu 20% færeysku heildarkvótanna boðin upp til skamms tíma. Af því sem eftir er fá núverandi kvótahafar að halda eftir þeim kvóta sem þeir höfðu í árslok 2007, stuttu áður en kvótarnir í NA-Atlantshafi tóku stórt stökk upp á við. Sá hluti sem er umfram stöðuna í árslok 2007 verður boðinn upp.
Ef þessari reglu væri beitt í dag færi þriðjungur makrílkvótans á uppboð og 74% af norsk-íslensku síldinni.