Alls námu veiðar Færeyinga við Ísland um 19.000 tonnum á árinu 2010, samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofu Íslands. Á árinu á undan nam aflinn aðeins 9.000 tonnum en mismuninn má fyrst og fremst rekja til þess að á árinu 2009 veiddu færeysk skip enga loðnu hér við land.
Botnfiskafli Færeyinga nam 5.335 tonnum á árinu 2010 sem er svipað og árið á undan en á árinu 2008 veiddu færeysk skip rétt um 6.000 tonn á Íslandsmiðum.
Af einstökum botnfisktegundum veiddu Færeyingar í fyrra mest af keilu (1.794 tonn), þorski (1.428 tonn) og löngu (1.095 tonn).
Af uppsjávarfiski veiddu þeir mest af loðnu eða 7.400 tonn.