Færeyingar hafa aukið verulega sölu á laxi til Rússlands eftir að bann var sett á innflutning sjávarafurða frá ESB-ríkjum, Noregi og fleiri löndum. Útflutningur Færeyinga til Rússlands tífaldaðist í september, að því er fram kemur á sjávarútvegsvefritinu undercurrentnews.com.

Jafnframt hafa Færeyingar mátt þola verðlækkun. Í fyrstu sendingu eftir að innflutningsbannið var sett á fengu þeir 10 dollara á kg, 1.203 ÍSK. Nú er verðið komið niður í 7,70-8 dollara kg, 927-963 ÍSK, sem er svipað og Norðmenn voru að fá fyrir þremur mánuðum áður en innflutningsbannið var sett á. Meðalverð til Norðmanna var 6,05 dollarar, 728 ÍSK, á þessu ári fram að innflutningsbanni.

Sílemenn hafa einnig tvö- til þrefaldað útflutning á laxi til Rússlands. Þessar tvær þjóðir seldu Rússum í september nálægt 80% þess magns þeir hefðu annars keypt af Norðmönnum.