Færeyingar munu á næstu dögum ákveða sér makrílkvóta fyrir yfirstandandi ár. Jacob Vestergaard sjávarútvegsráðherra staðfestir að hlutur Færeyinga af ráðlögðum heildarkvóta verði í kringum 23%, að því er fram kemur í Fiskeribladet/Fiskaren í dag.
Ef miðað er við ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins um 895.000 tonna heildarafla á árinu yrði færeyski kvótinn 206.000 tonn.
Jacob Vestergaard segir að samkomulag í makríldeilunni hafi ekki strandað á kröfum Færeyinga, heldur hafi þeir þvert á móti verið í hlutverki sáttasemjara. Meðal þátta sem skapað hafi vandræði í viðræðunum hafi verið veiðar Íslendinga í grænlenskri lögsögu og sú staðreynd að samningurinn milli Evrópusambandsins og Grænlands tryggði ESB helming grænlenska kvótans.