Færeyska útgerðin P/f Næraberg í Klakksvík, sem gerir út samnefnt skip og annað skip að auki, hefur fest kaup á uppsjávarskipinu Research frá Hjaltlandseyjum. Kaupverðið er um 100 milljónir danskra króna eða jafnvirði tæpra 1,6 milljarða íslenskra.

Skipið, sem mun fá nafnið Borgarin er 78,3 metra langt og 14,5 metra breitt og ber 2.700 tonna afla. Það var smíðað í Flekkefjord í Noregi árið 2003. Í frétt á vefnum Fiskerforum.dk segir að skipið hafi ekki verið á veiðum nema 2-3 mánuði á ári eða sem svarar tæpum þremur árum samanlagt á líftíma sínum.

Borgarin leysir af hólmi tvö skip færeysku útgerðarinnar, Næraberg sem er 104 metra langt og Slættaberg sem er 57 metrar á lengd. Þessi skip hafa verið sett á söluskrá.