Í dag mun færeyska landsstjórnin láta hart mæta hörðu í síldardeilunni við ESB, að því er fram kemur í færeyska útvarpinu. Landsstjórnin ætlar að skjóta því til alþjóðlegs gerðardóms hvort ESB hafi rétt til að beita viðskiptaþvingunum.
Reiknað er með því að boðað innflutningsbann á síld og makríl frá Færeyjum til ESB taki gildi í lok þessa mánaðar. Lögmaður Færeyja fékk fyrir rúmum mánuði sjö milljónir króna til að ráða sérfræðinga til að undirbúa málssóknina.
Gerðardómurinn er hluti af Hafréttarsáttmála Sameinuðu Þjóðanna. Færeyska útvarpið segist hafa heimildir fyrir því að málinu verði skotið til dómsins í dag. Þá gætu aðgerðir ESB frestast meðan dómurinn fjallar um málið.
Í frétt útvarpsins kemur einnig fram að þegar atkvæði voru greidd um viðskiptabannið fyrr í sumar innan ESB hafi 268 atkvæði verið greidd með banninu en 17 á móti. Lönd sem hafa yfir 68 atkvæðum að ráða sátu hjá. Danmörk, sem hefur 7 atkvæði, greiddi atkvæði á móti og einnig Búlgaría sem hefur 10 atkvæði.
Alls ráða 28 ESB-lönd yfir 352 atkvæðum og þurfti að lágmarki 260 atkvæði til að bannið tæki gildi.