Á fyrstu ellefu mánuðum ársins hafa færeyskir bátar landað tæpum 4.861 tonnum af bolfiski af Íslandsmiðum. Mest var um þorsk í aflanum eða 1.218 tonn og lönguaflinn var 1.172 tonn. Á vef Fiskistofu er bent á að heimildir færeyskra báta til þorskveiða á þessu ári séu 1.200 tonn og séu þeir því búnir að fullnýta heimildir sínar í tegundinni. Hins vegar er leyfilegur heildarafli færeyskra báta í bolfiski 5.000 tonn og eru þeir því búnir að nýta 97,2% af heimildum.  Alls hafa fimmtán bátar sem höfðu leyfi til línuveiða á árinu landað bolfiski úr lögsögunni. Aflahæstur færeysku bátanna á árinu er Eivind VA-132 með 603 tonn og Stapin FD-32 með 549 tonn.

Þrír norskir línubátar voru að veiðum í landhelginni á vormánuðum og lönduðu rúmlega 570 tonn af bolfisk samkvæmt upplýsingum frá þarlendum stjórnvöldum. Mest var um löngu í aflanum eða 250 tonn og keiluaflinn var 198 tonn.

58 erlend skip voru á loðnuveiðum á árinu

Skip frá þremur erlendum ríkjum stunduðu veiðar á loðnu á Íslandsmiðum á árinu eins og undanfarin ár. Færeysk skip lönduðu í febrúar og marsmánuði 30.095 tonn en norsk skip veiddu 50.571 tonn og grænlensk skip 38.601 tonn. Alls veiddu erlend skip því 119.267 tonn af loðnu úr lögsögunni á árinu.

Alls veiddu  fimmtíu og átta erlend skip loðnu úr íslenskri lögsögu á yfirstandandi vertíð. Lang aflahæsta skipið var grænlenska skipið Polar Amaroq með 24.057 tonn og Tuneq fylgdi í kjölfarið með nokkuð minni afla eða 9.291 tonn. Aflahæsta færeyska skipið var Finnur Fríði með 7.750 tonn og aflahæsta norska skipið var Havglans með 2.739 tonn.

Á vef Fiskistofu má sjá lista yfir aflahæstu erlendu loðnuskipin - HÉR