Fiskimálaráðið í Færeyjum tilkynnti í dag að kolmunnakvóti Færeyinga yrði aukinn úr 276.000 tonnum á nýliðnu ári í 477.000 tonn í ár. Fram kemur að aukningin sé í samræmi við samkomulag strandríkjanna síðastliðið haust sem byggt var á veiðiráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins.
Þess má geta í þessu sambandi að íslenski kolmunnakvótinn var um áramótin ákveðinn til bráðabirgða 150.000 tonn fyrir árið 2017 samanborið við 154.000 tonn á árinu 2016, en þess jafnframt getið að endanleg ákvörðun yrði tekin þegar fyrir lægju ákvarðanir annarra ríkja um sinn heildarafla. Stjórnvöld myndu við þá ákvörðun horfa til þess að hagsmunir Ísland yrðu ekki fyrir borð bornir.
Fiskimálaráðið færeyska hefur einnig ákveðið kvóta landsins í norsk-íslenskri síld. Hann verður 126.000 tonn samanborið við 56.000 tonn í fyrra. Þetta er 125% aukning. Til samanburðar má nefna að kvóti Íslands úr þessum stofni verður 103.000 tonn í ár sem er 133% hækkun frá fyrra ári. Aukningin stafar af hækkun veiðiráðgjafar Alþjóðahafrannsóknaráðsins ásamt 10% aukningu vegna einhliða ákvörðunar Noregs um að auka sinn hlut.