„Til að skapa meira virði og minnka sóun í sjávarútvegi þurfum við að efla samstarf,“ segir Alexandra Leeper, framkvæmdastjóri Íslenska sjávarklasans, um nýtt norrænt samstarfsverkefni sem félagið tekur þátt í.
„Þetta verkefni hefur einmitt það markmið að sameina sérfræðinga úr atvinnulífi, nýsköpun, tækni og rannsóknum til að finna lausnir sem geta verið bæði góðar fyrir fyrirtækin og umhverfið,“ segir Alexandra við Fiskifréttir.

Um er að ræða norrænt samstarfsverkefni sem nefnt er „100% Rækja“. Í því taka þátt, auk Íslenska Sjávarklasans, Royal Greenland, Primex, Nordic Marine Nutrition og SteCaO ApS, með stuðningi NOFIMA.
Að því er segir í tilkynningu sem Alexandra hefur sent frá sér er um að ræða metnaðarfullt verkefni sem mun umbreyta því hvernig rækjuskeljar, aukaafurð rækjuveiðigeirans, eru nýttar á Norðurlöndunum.
Verðmætt efni
„Markmið þess er að hvetja til umfangsmikilla breytinga í alþjóðlegum sjávarútvegi með því að sýna fram á hvernig aukaafurðir krabbadýra geta orðið verðmætar auðlindir fyrir iðngreinar þar sem eftirspurn er mikil,“ segir í tilkynningu Alexöndru þar sem bent er á að á hverju ári skapi krabbadýraveiðar 6-8 milljónir tonna af úrgangi á heimsvísu. Stór hluti hans endi annaðhvort í sjónum eða í landfyllingu.
„Þetta eykur losun gróðurhúsalofttegunda, hefur áhrif á vistkerfi og felur í sér sóun á bæði hagkvæmu og nothæfu hráefni. Verkefnið „100% Rækja“ mun taka á þessu með því að hámarka og staðla virðiskeðjuna fyrir vinnslu rækjuaukaafurða í kítósan, verðmætt innihaldsefni sem er notað í fæðubótarefni, næringarvörur og líftæknivörur,“ segir í tilkynningunni.
Mætir vaxandi eftirspurn eftir kítósani
Áfram segir að verkefnið muni straumlínulaga og samræma vinnslu rækjuaukaafurða og styðja við nýjar, þverþjóðlegar aðfangakeðjur á Norðurlöndunum. Samstarfið muni draga úr úrgangi, mæta vaxandi alþjóðlegri eftirspurn eftir kítósani og sýna fram á hvernig hringrásarhagkerfi geti verið bæði umhverfisvænt og fjárhagslega sjálfbært.
„Það mun einnig draga úr fjárfestingaráhættu og skapa tækifæri til sjálfbærrar nýtingar sjávarauðlinda. Með því að fjárfesta í nýsköpun og þróa „flýtileiðbeiningar“ um bestu starfsvenjur, mun þetta framtak færa Norðurlöndin í fararbrodd á heimsvísu í hringrásarhagkerfi og skapa fyrirmynd að beitingu hringrásarviðskiptamódela,“ segir í tilkynningu Alexöndru hjá Íslenska sjávarklasanum.