Það sem af er þessari öld hefur ísbjörnum á vissum svæðum við norðurheimskaut fækkað um helming, að því er bandarískir og kanadískir vísindamenn sem fylgjast með viðgangi ísbjarnarstofnsins við Alaska segja.

Þeir segja að afkomuskilyrði ísbjarna hafi þó aldrei verið verri en á tímabilinu 2004 til 2007. Þá var heimskautaísinn þunnur og ísbirnir áttu í miklum erfiðleikum að veiða sel til matar.

"Af þeim 80 húnum sem við fylgdumst með við Alaska á árunum 2004 til 2007 vitum við aðeins um tvo sem eru ennþá á lífi,“ segir Jeff Bromaghin talnasérfræðingur við Landfræðistofnun Bandaríkjanna.

Árið 2010 hafði fækkað í ísbjarnarstofninum á þessu svæði  um 40% og í honum voru um 900 dýr. Greint er frá þessu í tímaritinu Ecological Applications.

Vandamálið sem ísbirnir standa frammi fyrir á Norðurheimskautssvæðunum er bráðnun á ís.