„Þeir íbúar Grindavíkur sem leita skjóls í Bolungarvíkurkaupstað á meðan þetta hamfaraástand varir munu hafa sama aðgang að þjónustu og þau sem hafa lögheimili í Bolungarvíkurkaupstað,“ segir í kveðju frá bæjarstjórninni í Bolungarvík til Grindvíkinga.

„Bolungarvíkurkaupstaður sendir fyrir hönd íbúa hlýjar kveðjur og samhug til Grindvíkinga sem hafa þurft að rýma hús sín vegna náttúruhamfara. Hugur sveitarfélagsins eins og allra landsmanna er hjá ykkur og það er einlæg von okkar að þessar náttúruhamfarir fái sem farsælastan endi og að íbúar Grindavíkur geti snúið aftur til síns heima hratt og örugglega,“ segir í kveðju Bolvíkinga.

Þá segir að þeir sem geti boðið upp á húsnæði á meðan á rýmingu standi sé bent á að skrá sig á lista rauða krossins yfir boð um húsnæði til Grindvíkinga.