Sviptingar vegna tollamála í Bandaríkjunum og stríðsins í Úkraínu skapa mikla óvissu í rekstri íslenskra fiskútflytjenda.

Gunnar Örlygsson, framkvæmdastjóri IceMar, segist ekki gera sér grein fyrir hvað framtíðin beri í skauti sér.

„Bandaríkin eru stærsti einstaki markaður IceMar og auðvitað höfðum við miklar áhyggjur af því þegar þessi þróun byrjaði á þessum svokallaða frelsisdegi Trump þegar settur var á okkur tíu prósenta tollur. Samhliða þessu veiktist dollarinn um sjö eða átta prósent. Þannig að sveiflan er í raun 17 eða 18 prósent okkur í óhag,“ segir Gunnar. Þetta sé mikil sveifla.

„Það sem við höfum aftur á móti upplifað eftir þennan fræga frelsisdag er að okkar kaupendur hafa staðið í fæturna og ekki lækkað verð, það eru ákveðin tíðindi,“ segir Gunnar. Óvissa sé hins vegar um framhaldið.

Fyrirtækjum lokað í Kína

„Þetta mun kannski leiða til þess að fiskneysla hjá þessum aðilum sem við erum að selja inn á muni eitthvað minnka en á móti kemur að kínverskum fiskvinnslum sem vinna áfram þorsk, m.a. frá Noregi, var kippt út með ofurtollum inn á Bandaríkin,“ segir Gunnar. Hann hafi heyrt af því að nokkrum fyrirtækjum í Kína hafi verið lokað. Ofurtollarnir hafa nú reyndar verið aftengdir í 90 daga.

„Þeir markaðir sem Kínverjarnir voru búnir að vinna sér inn í Bandaríkjunum eru núna að banka á dyrnar hjá okkur og það gæti orðið til þess, að þó að verðlag á íslenskum fiski í bandarískum verslunum hækki um 15 til 20 prósent, eða sem nemur veikingu dollarsins og þessum tollum, að þá muni salan frá Íslandi ekki endilega minnka,“ segir Gunnar. Áfram verði fólk þar vestra eins og annars staðar þurfa að borða.

„Ég finn ekki fyrir því að salan hafi minnkað og við finnum ekki heldur fyrir því að kaupendur séu að óska eftir því að við séum að lækka verðið en líklega mun áhrifa ekki gæta að fullu fyrr en í haust,“ segir Gunnar.

Misjöfn staða vestan hafs

Spurður um hljóðið í viðskiptavinum IceMar í Bandaríkjunum segir hann þá auðvitað vera áhyggjufulla. Það eigi þó misjafnlega mikið við.

„Sumir innflytjendur í Bandaríkjunum standa uppi með pálmann í höndunum, það eru þau fyrirtæki sem voru að vinna bandarískar afurðir, sem sagt villtan fisk frá vesturströndinni og svo kannski íslenskan og norskan fisk með. En svo eru önnur innflutningsfyrirtæki sem reiddu sig á fisk frá Asíu sem eru í mjög erfiðum málum. Þetta er mjög lagskipt á milli fyrirtækja,“ lýsir Gunnar stöðunni í dag.

Hvað varðar Evrópu bendir Gunnar á að enn sé 35 prósenta tollur á rússneskan fisk inn til Bretlands. Enginn tollur sé á rússneskum fiski inn í Evrópu og algjört bann er með rússneskar sjávarafurðir inn til Norður-Ameríku.

Verðhækkun gæti horfið

„Nú hillir vonandi undir lok átaka milli Rússa -og Úkraínumanna. Mér kæmi ekki óvart að í þessu samningaferli sem fram undan er muni draga úr höftum á rússneskar afurðir. Til að mynda verður kannski opnað á rússneskar sjávarafurðir inn á Bandaríkin ef vel tekst til um þessa deilu,“ segir Gunnar.

Það muni vitanlega hafa einhver áhrif á íslenskan fisk ef Rússafiskurinn fari óheftur aftur inn á Bandaríkjamarkað.

„Þetta er síbreytilegt umhverfi og við verðum að vera stöðugt á tánum,“ segir Gunnar. Í dag séu Englendingar að greiða hærra verð fyrir sjófrystar afurðir frá Íslandi en nokkurn tíma áður. Verðið hafi hækkað um 20 til 30 prósent á milli ára.

„Fái Rússafiskur óheft aðgengi þá mun samkeppnin við Rússa breytast ansi mikið bæði með sjófrystar afurðir sem og landfrystinguna,“ segir Gunnar Örlygsson.