Samtök skoskra útgerðarmanna sem gera út skip á veiðar á hvítfiski óttast að fyrirhuguð fækkun á fjölda veiðidaga á næsta ár gangi of nærri rekstrargrundvelli skoskra skipa, að því er fram kemur í Fiskeribladet/Fiskaren.

Ef ESB heldur fast við fyrri áform um 15% niðurskurð veiðidaga leiðir það til þess að skosku skipin geta aðeins verið 90 daga á veiðum árið 2012.

Fiskeribladet/Fiskaren segir að í mörg ár hafi verið unnið eftir áætlunum um að byggja upp þorskstofninn í Norðursjó og það hafi skilað litlum árangri. Þótt kvótinn hafi verið skorinn niður hafi það ekki dregið nógu mikið úr veiðunum. Flotinn hafi kastað smáfiskinum í meiri mæli og landað aðeins stærri og verðmeiri fiski.

Þá var gripið til þess ráðs að draga jafnframt úr sókninni með því að fækka dögum sem einstakir skipaflokkar mega vera á veiðum til að ná úthlutuðum kvóta. Þetta fyrirkomulag virðist heldur ekki ætla að skila árangri. Samtök skosku útgerðanna segja að samtímis hafi hagur útgerðarinnar versnað og frekari fækkun daga gæti leitt til gjaldþrota.