Alþjóðahafrannsóknaráðið (ICES) leggur til að þorskkvótinn í Eystrasalti verði aukinn um allt að 15% á árinu 2010 en ráðgjöf ICES varðandi veiðar í Eystrasalti var kynnt nýlega.
Í ráðgjöf ICES kemur fram að óhætt sé að auka þorskkvótann bæði í austur- og vesturhluta Eystrasalts. Miðað við áætlun sem liggur fyrir um stjórn þorskveiða þýðir mat ICES að unnt verði að auka þorskkvótann um 8,6% í vesturhluta Eystrasalts en um 15% í austurhlutanum.
Ráðgjöf ICES varðandi síld í Eystrasalti gefur ekki tilefni til jafnmikillar bjartsýni. Miðað við varúðarsjónarmið er lagt til að síldarkvótinn verði minnkaður um 28%. Sömuleiðis er lagt til að veiðar á brislingi verði dregnar saman um 28%. Ráðleggingar ICES verða lagðar til grundvallar þegar kvótar innan ESB eru ákveðnir. Varðandi Eystrasaltið þá liggur sú ákvörðun yfirleitt fyrir í október ár hvert.
Heimild: Fiskeribladet/Fiskaren