Vestmannaeyjatogararnir Vestmannaey VE og Bergey VE lönduðu báðir á Djúpavogi í gær. Þeir voru kallaðir inn vegna þess að fisk vantaði til vinnslu hjá Vísi í Grindavík. Birgir Þór Sverrisson, skipstjóri á Vestmannaey, segir í samtali við tíðindamann heimasíðu Síldarvinnslunnar að túrinn hafi verið þokkalegt juð.

„Við fórum út frá Eyjum á fimmtudagskvöld. Byrjað var á að taka tvö hol á Vík og Pétursey og síðan var haldið á Höfðann. Við þurftum að flýja frá Höfðanum því þar var vitlaust veður og þá var haldið austur á bóginn. Við fengum þokkalegasta afla í Hvalbakshallinu og Utanfótar og þar var mest um ýsu og þorsk að ræða. Landað var síðan rúmlega 60 tonnum af ágætum fiski á Djúpavogi,” sagði Birgir Þór.

Jón Valgeirsson, skipstjóri á Bergey, hafði svipaða sögu að segja.

„Við héldum til veiða á föstudagsmorgun og byrjuðum á Höfðanum. Þar var býsna rólegt. Þá var siglt austur eftir og mest veitt á Grunnfætinum og Utanfótar. Aflinn var nánast eingöngu þorskur, ágætis fiskur. Þarna var þokkalegasta nudd og haldið var til lands með um 60 tonn. Ég reikna með að fara eitthvað vestur eftir að löndun lokinni,” sagði Jón.