Þegar menn vilja gera vel við sig í mat kemur gjarnan upp í hugann humar; grillaður humar í hvítlaukssmjöri, pönnusteiktur humar, humar í karrý eða gráðostasósu eða súpa með humarhölum. Frá árinu 2022 hafa humarveiðar verið bannaðar við Ísland. Humar hefur verið fluttur inn frá Danmörku og Skotlandi og stærsti hlutinn kemur frá Danmörku í gegnum Humarsöluna ehf.

Guðjón Vilhelm Sigurðsson, framkvæmdastjóri Humarsölunnar, segir eftirspurn jafna og góða en langmesta í kringum jólin.

Guðjón Vilhelm Sigurðsson, framkvæmdastjóri Humarsölunnar.
Guðjón Vilhelm Sigurðsson, framkvæmdastjóri Humarsölunnar.

50-60 tonn af hölum á ári

„Við höfum flutt inn humar frá Danmörku allt frá því að hætt var að veiða humar hérna,“ segir Guðjón. Eingöngu er fluttur inn hali og er þetta á milli 50-60 tonn á ári af hölum sem koma frá Danmörku. Þegar mest var, árið 2018, seldi Humarsalan um 100 tonn af innfluttum hölum og úr íslenskum sjó á innanlands markaði. Hann segir að dregið hafi úr sölunni og svo virðist sem margir átti sig ekki á því að þessi vara er fáanleg.

Bíllinn lestaður humri í morgunsárið.
Bíllinn lestaður humri í morgunsárið.

Eins og sá íslenski

„Við byrjuðum að flytja inn humar 2016-2017 þegar við sáum í hvað stefndi með veiðarnar hérna. Þá var mikið hringt í okkur og við spurðir um muninn á dönskum og íslenskum humar. Það fór oft langur tími í að útskýra fyrir fólki að það væri lítill sem enginn munur á dönskum og íslenskum humri. Sá danski elst vissulega upp í 3ja gráða heitari sjó og er aðeins smærri en sá íslenski. Núna segjum við bara að hann sé veiddur hinum megin við línuna.“

Innflutti humarinn er leturhumar, nephrops novegicus, sem er sá sami og hefur haldið sig við Ísland. Hann segir að lítillega hafi dregið úr sölunni en það sé ekki verðið sem neytendur setji fyrir sig heldur frekar að þeim hafi verið talin trú um að humar sé í útrýmingarhættu og þess vegna ekki fáanlegur. Ósjálfrátt fari veitingastaðir og aðrir sem hafa boðið upp á humar að setja aðra kosti á sína matseðla og margir haldi að lítið afhendingaröryggi sé á þessari vöru.

Humarstofninn stöðugur við Danmörku

„Við höfum haft aðgengi að humri frá stærsta humarframleiðanda Danmerkur. Danir veiða sjálfir u.þ.b. 8.000 tonn af heilum humri á ári, sem er nálægt 2.500-3.000 tonn af hölum, í Skagerak, Kattegat og í Norðursjónum og þar virðist ástandið á humarstofninum nokkuð stöðugt,“ segir Guðjón.

Á veiðislóðinni við Danmörku er sjávarhitinn að meðaltali nálægt þremur gráðum hærri en við sunnanvert Ísland. Guðjón segir að bent hafi verið á að hugsanlega megi rekja hrunið í humarstofninum við Ísland til hækkandi sjávarhita. Að sínu mati ætti það þó frekar að leiða til bættra búskilyrða humarsins. Hér við land hrygnir kvenhumarinn á tveggja ára fresti vegna lægri sjávarhita en hrygning fer fram á hverju ári í Skagerak og Kattegat.

„Upp úr 2013 eða 2014 fór ég að heyra mikið á tali manna sem þekktu vel til, sérstaklega eldri skipstjóra, að með áframhaldandi sömu sókn myndi þetta enda illa. Menn bentu á þyngd og stærð veiðafæranna sem notuð voru við humarveiðarnar og hve öflug skipin voru. Humarslóðirnar væru það viðkvæmar að þær myndu ekki lifa þetta af. Auk þess var veiðitímabilið lengt, að mig minnir frá mars og út nóvember. Áður hafði humarvertíð einungis staðið frá enduðum maí fram í byrjun ágúst. Þann tíma var humarinn veiðanlegur því þá var bjart og hann kom upp úr holunum sínum. Þessi sjónarmið hefðu mátt heyrast betur í mati vísindamanna. Mér finnst reynslan og vísindin oft ekki tala saman,“ segir Guðjón.

Humar í holu og annar í grennd.
Humar í holu og annar í grennd.

Jólasala á humri

„Þessi stofn er farinn sem er algjört klúður. Við eyðilögðum flottasta humarstofn í heimi. Við fórnuðum flottasta humarstofninum á altari græðginnar. Núna erum við bara að flytja inn humar og innanlandsneyslan er bara brot af því sem var þegar humar veiddist við landið.“

Mesta salan er í kringum jól. Vetrarveiði á humri er oft mjög góð við Danmörku og Humarsalan ehf. byrjar strax að birgja sig upp í janúar og febrúar til þess að eiga nóg af humri um næstu jól og af réttri stærð. Íslendingar velja helst miðstærð og þaðan af stærri humar en ekki miðstærð og þaðan af minni humar eins og flestir aðrir kjósa. Hlutfall aflans í veiðinni í Danmörku er mun minni í þessum stærðarflokkum og því þarf að byrja að hamstra strax í janúar. Humarsalan er með frystigeymslur sem taka allt að 50 tonn og hefur því getað birgt sig vel upp fyrir jólin. Guðjón segir að það bregðist ekki heldur að Humarsalan er orðin uppiskroppa með humar milli jóla og nýárs, allt selst upp. Það er sterk hefð fyrir neyslu humars yfir hátíðarnar.

Untitled
Untitled

Úr talsverðu í ekkert

Sú var tíðin að íslenskir bátar veiddu umtalsvert magn af leturhumri, nephrogs norvegicus, fyrir sunnan land. Miðin voru austan frá Stokksnesi og vestur fyrir Reykjanes. Humarveiði hófst fyrst hér við land á sjötta áratug síðustu aldar, nánar tiltekið 1951, og það voru íslensk, belgísk og frönsk skip sem stunduðu veiðarnar. Frá árinu 1975 voru það eingöngu íslenskir bátar sem veiddu humar við landið. Humarinn er við sín nyrstu útbreiðslumörk hér við land og sökum lágs sjávarhita hrygnir kvenhumarinn, sem fyrr segir, ekki nema annað hvert ár en í heitari sjó hrygnir humarinn yfirleitt á hverju ári. Mest var veitt árið 1963, 6.062 tonn af heilum humri en á seinni hluta áttunda áratugarins fór að halla undan fæti og enn frekar á tíunda áratug síðustu aldar og fyrstu tveimur áratugum þessarar aldar. Hafrannsóknastofnun komst að þeirri niðurstöðu að nýliðun humarstofnsins hefði minnkað allt frá árinu 2005. Frá árinu 2022 hafa humarveiðar við Ísland verið bannaðar í samræmi við ráðgjöf stofnunarinnar. Þeir eru margir sem telja að niðursveifluna í stofni leturhumars við Íslands megi rekja til umfangsmikilla togveiða um áratuga skeið.