Eyborgin EA-59 hefur fengið úthlutað 52 tonna túnfiskkvóta Íslands í ár og mun veiða hann í nót í Miðjarðarhafi til áframeldis.
Tafir urðu á úthlutun veiðileyfisins og hefur skipið aðeins nokkra daga til að veiða kvótann.
Túnfiskvertíðinni í Miðjarðarhafi lýkur um næstu mánaðamót.
Túnfiskurinn verður veiddur í flóanum úti af Líbýu. Áformað er að veiða hann í samstarfi við Líbýumenn. Þeir sjá um að fanga fiskinn og koma honum lifandi í nót Eyborgar. Þaðan er hann fluttur í sjókví sem aflanum er safnað saman í.
Sérstakur dráttarbátur dregur kvína síðan til Möltu þar sem túnfiskurinn fer í áframeldi.
Nánar er fjallað um málið í nýjustu Fiskifréttum.