,,Þegar leigan á skötuselskvótanum var tilkynnt tók sjávarútvegsráðherra skýrt fram að það mál væri algjörlega sérstakt og hefði ekkert fordæmisgildi. Nú er komið á daginn að ekkert var að marka orð ráðherrans,” sagði Friðrik J. Arngrímsson framkvæmdastjóri LÍÚ í samtali við Fiskifréttir.
Tilefnið er sú yfirlýsing Jóns Bjarnasonar sjávarútvegsráðherra í dag að hann áformi að auka kvóta í nokkrum helstu fisktegundunum og bjóða viðbótina til leigu gegn gjaldi.
,,Þarna er auðvitað verið að fara fyrningarleiðina, hreint og klárt. Þeir sem hafa keypt aflaheimildir í trausti þess að þær væru varanlegar og tekið á sig skerðingar í þeirri trú að þeir myndu njóta þess þegar kvótarnir yrðu auknir á ný sitja nú með sárt ennið. Við mótmælum þessu auðvitað mjög harðlega,” sagði Friðrik.