Fimmtudaginn 19. júní næstkomandi mun franska skólaskútan Etoile leggjast að bryggju á Fáskrúðsfirði.

Að því er segir í fundargerð bæjarráðs Fjarðabyggðar er Etoile önnur tveggja skonnorta í eigu Frakka

„Hún kom síðast til Fáskrúðsfjarðar 2013, en hún ásamt Belle Poulle voru byggðar í Fécamp árið 1932. Á árum seinna stríðs þjónuðu þær andspyrnuhreyfingu Frakka. Meðal annars voru skonnorturnar notaðar til fiskveiða undan Íslandsströndum til 1938. Skúturnar eru nú notaðar til þjálfunar hjá franska sjóhernum,“ segir í greinargerð sem lögð var fram í bæjarráðinu.

Kokteill um borð

Áætlað er að hin gamla skonnorta leggi að bryggju á Fáskrúðsfirði klukkan níu að morgni 19. júní og verði þar til sunnudagsins 22. júní. Kemur fram að fulltrúi franska sendiráðsins hafi óskað eftir aðkomu sveitarfélagsins við að taka á móti skútunni og hefur eftirfarandi dagskrá nú verið sett upp:

Fimmtudagur, 19. júní

09:00 Koma skútunnar Etoile til Fáskrúðsfjarðar.

Föstudagur, 20. júní

10:30 Athöfn við minningarreit franskra sjómanna

11:30 Heimsókn í Franska safnið

16:00 Kokteill um borð í Etoile í boði sveitarfélagsins.

Laugardagur 21. júní

14:00 -16:00 Almenningi boðið að koma og skoða skútuna. Gert er ráð fyrir að fulltrúar sveitarfélagsins taki á móti komu Etoile ásamt fulltrúa franska sendiráðsins.

Fylgjast með með ferðum Etole á Facebook-síðu skipsins.