Hvalir éta miklu meira en áður var talið, og skíta sömuleiðis miklu meira. Þetta fullyrða vísindamenn sem birtu í byrjun nóvember grein í tímaritinu Nature um rannsóknir sínar.
„Niðurstöður okkar benda til þess að í fyrri rannsóknum hafi fæðunám skíðishvala verið vanmetið sem nemur þreföldu magni hið minnsta í sumum vistkerfum,“ segir í greininni.
Aðalhöfundur hennar er Matthew S. Savoca við Stanford-háskólann í Kaliforníu.
Þeir segja að til þessa hafi fæðunám stærstu tegundanna verið metið með því að nota efnaskiptalíkön sem eru áætluð út frá tölum sem ekki hefur verið hægt að sannprófa.
Þeirra rannsókn er hins vegar gerð þannig að þeir fylgjast með ferðum merktra hvala og þær bornar saman við bergmálsmælingar á þéttleika fæðu í hafinu. Út frá því var fæðunám hvalanna reiknað bæði fyrir hvern dag og yfir árið.
Þetta var skoðað á nokkrum svæðum í Atlantshafi, Kyrrahafi og Suðurhöfum.
Sagt er frá þessum rannsóknum í veftímaritinnu Hakai Magazine, þar sem haft er eftir Savoca að alls hafi þeir merkt 321 hval af sjö tegundum skíðishvala og notuðu jafnframt dróna til þess að fylgjast með því hvenær þeir fylltu lungun. Þannig gátu þeir séð hve oft hvalirnir náðu sér í fæðufylli.
Þannig kom í ljós að steypireyður í Norður-Kyrrahafi étur 10 til 22 tonn af átu á dag, en það gefur þeim um 40 milljón kaloríur sem er álíka mikið og 71.000 Big Mac hamborgarar. Ekki á þetta þó við alla daga ársins, því algengt er að skíðishvalir éti ekkert að ráði nema um það bil 90 til 120 daga á ári.
Á móti kemur svo að hvalirnir skíta meira en áður var talið, og það þykir góðs viti því það hefur í för með sér að sjórinn verður næringarmeiri öllu lífríkinu til hagsbóta.